145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

12. mál
[17:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er hv. þm. Össur Skarphéðinsson ekki nýgræðingur í pólitík og allra síst vinstri pólitík og hefur kannski upplýsingar sem maður er ekki með varðandi vinstri flokkana, en ég hef nú staðið í þeirri trú og vildi trúa því að það hafi verið almennt traust til lögreglunnar og við sjálfstæðismenn hefðum ekki einkarétt á því að halda utan um góða löggæslu á Íslandi, en má vera að það hafi verið þannig. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson getur kannski upplýst okkur um hvort þannig hafi það verið og hvort vinstri menn á Íslandi hafi þá litið á sig sem ekki neina sérstaka stuðningsmenn öflugrar og góðrar löggæslu. Ég er ekkert hlutlaus í þessu máli, virðulegi forseti, ég hef oft sagt það að ég sé alinn upp í lögreglubíl enda faðir minn yfirlögregluþjónn og lögregluþjónn til áratuga í mínum gamla heimabæ Borgarnesi.

Ég hef aldrei litið svo á að við sjálfstæðismenn hefðum einkarétt á því að tala fyrir persónufrelsi eða öflugri og góðri löggæslu í landinu. Ég held að ef grannt er skoðað sé erfitt að finna því rök að við höfum verið eini flokkurinn sem hefur gert það í gegnum tíðina, en hv. þingmaður leiðréttir mig kannski ef það er rangt. Þannig að ég sé ekki alveg þessi sögulegu umskipti sem hafa orðið í þingsalnum í dag. En ég fagna því þegar menn koma með góð mál, hvort sem það er hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson í Pírötum eða hv. þm. Össur Skarphéðinsson eða hv. þm. Helgi Hjörvar frá Samfylkingunni, og þá finnst mér að maður eigi að styðja þau og leggja sitt lóð á vogarskálarnar. Ég vona að við nálgumst mál með þeim hætti í nútíð og framtíð.