145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[17:31]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þingmaður byrjaði hélt ég að hann ætlaði að kalla mig repúblikana vegna þess að ég held að þeir hafi byrjað á svipuðu mál á sínum tíma. En svo var ekki (ÖS: Er það skammaryrði í huga þingmannsins?) því að hv. þingmaður sagði að á mig væru að vaxa sósíaldemókratískir píratavængir. Það er bara fínt að vera með allt undir og breið samstaða er bara góð. Ég fagna því ef hv. þingmaður, sem lýsti því yfir, ætli að styðja þetta mál og ég geri ekkert lítið úr því. En ég held hins vegar að það sé alþjóðlegt verkefni að gæta almannafjár og það er það, öll þjóðfélög eru sífellt að eiga við það, og mér er alveg nákvæmlega sama hvaðan þær hugmyndir koma. Þær eru góðar og eru alveg í anda þess sem ég hef barist fyrir frá því ég hóf að hafa afskipti af stjórnmálum. Þegar ég var formaður SUS þá gerði ég eitt sem var kannski svolítið í anda þessa og fékk skammir fyrir að við settum stofnanir á svart/hvítan lista, við settum á hvítan lista stofnanir sem voru alltaf innan ramma fjárlaga og svo fóru á svarta listann þær stofnanir sem fóru alltaf yfir, og við gerðum ýmislegt annað til að draga athyglina að því hvernig væri farið með opinbert fé.

Hv. þingmaður spyr hvernig gangi núna, ég veit ekki. Það væri áhugavert að kanna tregðulögmál, af hverju þau eru til staðar. Fyrir mér eru þau óskiljanleg. Ég er þeirrar skoðunar að þær opinberu stofnanir sem bjóða ekki út, til þeirra eigi að lækka fjárframlög. Þær hafa augljóslega of mikið af peningum ef þær þurfa ekki að bjóða út. En ég hef bara ekki svarið við því af hverju þessi tregða er.

Hv. þingmaður spyr um sjálfseignarstofnanir. Þeirra er sérstaklega getið vegna þess að mönnum finnst þær koma til greina en gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að fyrsta skrefið sé að gera þetta með þessum hætti en við ættum auðvitað að ræða það líka.