145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[17:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni og meðflutningsmönnum fyrir þessa stórgóðu tillögu. Hann getur algjörlega stólað á minn stuðning við þetta góða og þarfa mál.

Ég er með tvær spurningar en ég ætla að hafa bara eina í hvoru andsvari. Sú fyrri er: Til hvers er þessi 150 þús. kr. takmörkun? Ég velti því fyrir mér hvers vegna svona takmarkanir eru settar yfir höfuð. Ég sé ekki skýringu á því í greinargerð og er hreinlega forvitinn og líka vegna þess að ég velti því fyrir mér hvort ekki megi komast fram hjá því að upplýsingar verði birtar með því að senda einfaldlega marga litla reikninga upp á 149 þús. kr. sem dæmi. Ég velti því fyrir mér hverjar forsendurnar eru á bak við þetta. Ég geri ráð fyrir því að þarna sé einhver persónuverndarvinkill eða því um líkt sem menn hafa kannski verið að velta fyrir sér, en svo ég upplýsi bara strax um mína afstöðu til þess þá finnst mér það ekki einkamál hvað ríkið borgar, svo lengi sem það er fyrir fram vitað af þeim sem eiga í viðskiptum við ríkið hvað er opinbert og hvað ekki. Ég lít ekki á það sem vandamál enda er það ekkert einkamál hvað ríkið borgar í sjálfu sér, þegar kemur að kaupum á vöru og þjónustu fyrir opinber fyrirtæki. Mér finnst það ekki vera einkamál. En ég velti fyrir mér þessu 150 þús. kr. marki.