145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[17:57]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og stuðninginn. Eins og ég nefndi eru 150 þús. kr. ekki greyptar í stein. Ég er sammála hv. þingmanni um að framsetning gagna skiptir mjög miklu máli þannig að hægt sé að vinna úr þeim. Hann veltir upp þætti sem skiptir máli sem er persónuverndarvinkillinn.

Eins og ég nefndi áðan til upplýsingar þá er þetta þannig, sem er eðlilegt og mikilvægt, að ráðuneyti og stofnanir geta kallað til sérfræðinga í skamman tíma, þurfa ekki að ráða þá í langan tíma, enda er þar oft um skammtímaverkefni að ræða og kannski fáir sem hafa þekkinguna, og ekkert mælir heldur gegn því að þeir séu ráðnir inn til lengri tíma. Það eru tvær leiðir: annars vegar geta þeir farið í sérverkefni, hins vegar tímabundnar ráðningar.

Nú er það þannig hjá okkur að hv. þingmaður getur beðið um upplýsingar um sérverkefni. Þá fær hann bara nafnið á viðkomandi einstaklingi og upphæðina en ekki tímabundnar ráðningar. Þetta er oft gert tortryggilegt og því má færa rök fyrir því að þeir sem kunna betur á þetta verði þá ekki fyrir kastljósi fjölmiðla en aðrir, sem eru þá óvanari í þessum bransa, gætu orðið fyrir einhverju ónæði stundum, kannski ekki að ástæðulausu en stundum er eitthvað sem er fullkomlega eðlilegt gert tortryggilegt. En auðvitað þurfum við að huga að þessum þætti sem varðar friðhelgi einkalífsins, það þurfum við alltaf að gera. Það er eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur því að það er náttúrlega partur af þjónustukaupunum að kaupa þjónustu af einstaklingnum.

Varðandi samkeppnissjónarmið þá væri það nú kannski fyrst og fremst það að menn væru þá að upplýsa eftir útboð eða eitthvað slíkt á hvað þeir væru að selja vöruna. Kannski er þá hægt að finna það ef menn fá reikningana, alla vega ef það er merkt sérstaklega inn á reikningana, en þetta er eitthvað sem við þurfum að fara yfir.