145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[17:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir þetta en kannski bæti ég því við að þegar kemur að muninum á sérverkefnum og tímabundnum ráðningum þá er mikilvægast að forsendurnar séu skýrar fyrir fram. Það er ætlast til annarra hluta af manni ef maður ræður sig sem verktaka en ef maður ræður sig sem launþega. Ef maður er verktaki þarf maður að sjá um skatta og lífeyrissjóð og allt slíkt sjálfur en ef maður er í launaðri vinnu þá gerir vinnuveitandinn það jafnan fyrir mann o.s.frv. Það er mikilvægast að þetta sé skýrt fyrir fram þannig að menn viti eftir hvaða reglum þeir eru að spila, það er númer eitt, tvö og þrjú. Oft er spurningin um friðhelgi einkalífsins einfaldlega upplýst samþykki.

Nú er enginn neyddur til að versla við ríkið. Maður er hins vegar neyddur til að borga skatta sem dæmi. Það felst í þessu val sem hægt er að setja ákveðin skilyrði við. Og svo lengi sem upplýst samþykki er raunverulega upplýst þá hef ég ekki miklar áhyggjur af þessu, en auðvitað er þetta bara útfærsluatriði sem þarf að fara yfir. Kannski þarf þetta ekki einu sinni að standa í lögum. Kannski fylgir þetta bara upplýsingalögum eins og þau eru og lögum um persónuvernd. En ég hlakka mikið til að sjá nefndarálit hv. fjárlaganefndar að því gefnu að henni gefist rúm til að fara vel yfir þetta áhugaverða og mikilvæga mál.