145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[18:01]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að almennt eigi forsendurnar að vera skýrar, af hverju viðkomandi einstaklingur er ráðinn í tímabundna ráðningu í stað sérverkefna. Eitt er þessi þáttur, eins og hv. þingmaður nefndi, varðandi vinnu verktaka og að vera ráðinn inn á laun, það er allt satt og rétt. En ég held að stóra málið sé að það sé nokkuð skýrt hvenær menn fara í tímabundnar ráðningar og af hverju og hvenær menn kaupa eða selja hefðbundna sérfræðiaðstoð. Ég held að það ætti ekki að vera stórmál í þessu. Að öllu óbreyttu geri ég ráð fyrir því, eins og nú er, að kalla ætti eftir upplýsingum um sérfræðiaðstoð, sem er mjög mikið gert af, en hins vegar er það bara sérmál og tengist ekki þessum muni á milli tímabundnu ráðninganna og sérfræðiaðstoðar.

Í öllum okkar verkum eigum við að huga að persónufrelsi og friðhelgi einkalífsins. Ég er ekki að segja að hv. þingmaður hafi neitt verið að gefa það í skyn en alla vega sé ég ekki að rökin eigi við um það þegar um er að ræða lögaðila sem eru að selja þjónustu, jafnvel þó að þeir séu litlir lögaðilar, en væntanlega fáum við einhver viðbrögð frá hagsmunaaðilum þegar við sendum þetta til umsagnar. Þá kannski koma einhver slík sjónarmið sem við sjáum ekki hér í salnum. Til þess erum við með þetta vinnulag, að senda mál út, að betur sjá augu en auga.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnaleg og góð andsvör og stuðning við málið.