145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

hæfnispróf í skólakerfinu.

[15:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem verið var að ræða í því viðtali sem hv. þingmaður las lítinn bút úr er sú staðreynd að þær tæknibreytingar sem ganga yfir veröldina, og sá hraði er sívaxandi, gera að verkum að ýmis þau störf sem við þekkjum í dag munu að öllum líkindum hverfa og ný koma í staðinn.

Hv. þingmaður spyr: Hvaða störf? Ef ég ætti nú, virðulegi forseti, þá kristalkúlu stæði ég ekki hér. Það er einmitt það sem er svo erfitt að spá um. Það er eiginlega ógjörningur að átta sig á því hvaða störf það verða. Hægt er að benda á fjölmörg dæmi á undanförnum árum og áratugum um heilu starfsgreinarnar sem hafa tekið gjörbreytingum vegna tækniframfara og hafa gert að verkum að ný störf hafa komið í staðinn. Ég bendi til dæmis á svona gamalgróinn atvinnuveg eins og sjávarútveginn, breytingarnar sem orðið hafa þar. Það er bara eitt dæmi, en við eigum eftir að sjá miklu meiri breytingar hvað þetta varðar.

Breytingarnar sem eru að verða núna, og hafa gengið í gegn í grunnskólanum, snúa að því að leggja hæfni nemenda til grundvallar til þess einmitt að við búum þau sem best með almennum hætti undir þennan veruleika.

Strax árið 2011, þegar almennur hluti aðalnámskrárinnar var samþykktur og gefinn út, var lagt upp með nýtt einkunnakerfi, bókstafakerfi það sem verið hefur til umræðu, en síðan hefur það komið fram hjá nokkrum skólameisturum þeirra skóla sem eru að taka inn nemendur og geta líka hafnað, af því að meiri eftirspurn er eftir þeim skólum en rúm er fyrir, að menn telja að nýtt einkunnakerfi gefi ekki nægilega útfærða mynd fyrir skólana hvað varðar forgangsröðun nemenda.

Ég met það aftur á móti svo að það einkunnakerfi sem komið er veiti nemendum og foreldrum mjög góða leiðsögn. En það eru örfáir skólar, kannski fjórir, fimm eða sex skólar á landinu, sem eru í þeirri stöðu að velja og hafna nemendum af rúmlega 30 skólum á framhaldsskólastigi, og þá er sjálfsagt mál að skoða það hvernig hægt er að verða við slíkum kröfum. Það þarf ekki með nokkrum hætti að valda nokkurs konar bresti í trúnaði eða samstarfi á milli menntamálaráðuneytis, Menntamálastofnunar og skólanna, ekki með nokkrum hætti, virðulegi forseti.