145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

hæfnispróf í skólakerfinu.

[15:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst ber nú að hafa í huga að það einkunnafyrirkomulag sem notað hefur verið á undanförnum árum, frá því að samræmdu prófin voru afnumin, ber þess ýmis merki að hlaupið hafi í þann skala mikil einkunnaverðbólga, þannig að hann sé orðinn allt að því ónothæfur, þ.e. að það sé orðið ómögulegt fyrir skólastjórnendur á framhaldsskólastigi að bera saman einkunnir frá ólíkum skólum. Skólastjórnendur á framhaldsskólastigi hafa með öðrum orðum ekki neinn samanburð en það er vandamál sem ítrekað hefur komið fram.

Hvað varðar síðan traust á milli skólastiga endurspeglast sá vandi í því sem ég var að segja, að skólastigin eiga erfitt með að átta sig á því hvað hitt skólastigið er að gera eða segja eða senda skilaboð um. Þetta endurspeglast líka á háskólastiginu gagnvart framhaldsskólunum.

Það sem verið er að vinna með, og hefur verið í vinnslu allt frá árinu 2011, er nýr einkunnaskali á grunnskólastiginu, en ég ítreka að ekki hefur verið sett fram eða útfærð ein einasta tillaga. Þegar hv. þingmaður spyr hvers vegna ekki sé búið að útfæra tillögurnar áður en þær eru kynntar er það vegna þess að það er verið að hefja umræðu.

Virðulegi forseti. Hvernig í ósköpunum á að hefja umræðu um nokkurn skapaðan hlut í þessu landi ef þarf alltaf að hefja hana með því að leggja fram tilbúna og mótaða tillögu? Það er einmitt verið að kalla eftir sjónarmiðum, skoðunum og verið er að skoða þetta mál þannig að menn geti síðan tekið einhverja upplýsta afstöðu þegar til þess kemur.