145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

uppbygging Landspítalans við Hringbraut.

[15:24]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka skemmtilega spurningu um áhugavert mál. Ég hef lýst því yfir áður og nokkrum sinnum, ég man reyndar ekki hversu mörg ár eru síðan ég ræddi þetta fyrst, að ég teldi ýmislegt benda til þess að til lengri tíma litið, ef menn ætla raunverulega að byggja nýjan Landspítala, sé skynsamlegra að gera það annars staðar en við Hringbraut, þá einhvers staðar þar sem hægt sé að byrja frá grunni með glæsilegan, nútímalegan, nýjan spítala á stað sem liggur til dæmis betur við samgönguæðum.

Hins vegar er alveg ljóst, og ég hef getið þess örugglega jafn oft og ég hef rætt þetta mál yfir höfuð, að það þarf að ráðast í verulegar úrbætur á húsnæði Landspítalans. Hann verður þarna einhvern tíma í viðbót og á meðan spítalinn er á þessum stað mun þurfa að huga að nauðsynlegu viðhaldi, framkvæmdum og uppbyggingu. Það getur þurft að byggja eitthvað við spítalann þannig að hann geti sinnt hlutverki sínu.

Það er hins vegar ekkert að því að velta því fyrir sér til lengri tíma litið ef menn ætla einhvern tímann í framtíðinni að ráðast í að byggja alveg nýjan spítala hvort þetta sé besti staðurinn til þess.

Svo hef ég bent á að menn gætu velt því fyrir sér að býsna margt hefur breyst í fasteignamálum á allra síðustu árum. Nú má hvergi sjást autt hús í grennd við miðbæ Reykjavíkur, þá er því breytt í hótel. Gamla landspítalahúsið og margar byggingar þar í kring gætu hentað prýðilega sem hótel og þá má fara að leika sér að því hvað væri hægt að fá fyrir allar þessari byggingar og hugsanlega byggingar rétt þar í kring og hvort jafnvel væri hægt að fjármagna nýjan spítala annars staðar með þeim peningum.

Menn hafa hins vegar ekki verið tilbúnir að velta því fyrir sér og þá hef ég lýst því yfir að þegar meira að segja borgin segir að hún muni stoppa verkefnið ef menn leyfi sér að skoða slíka hluti muni ég að sjálfsögðu ekki verða til þess að tefja (Forseti hringir.) nauðsynlegar framkvæmdir og úrbætur á Landspítalanum. Yfirleitt er þó betra að menn leyfi sér að minnsta kosti að velta hlutunum fyrir sér og ræða þá.