145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

einkavæðing Landsbankans.

[15:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Að selja 30% hlut í Landsbankanum er gríðarlega stór ákvörðun fyrir ríkið, hvað þá að selja 60–70% hlut í bankanum. (Gripið fram í: Hver nefndi það?) Slík ákvörðun er að mínu viti algerlega ótímabær því að við búum við óeðlilegt viðskiptaumhverfi í landinu. Hér eru enn þá fjármagnshöft við lýði. Hér er enn þá gríðarlegur hagnaður af bönkunum vegna þessa óeðlilega umhverfis, skattgreiðendur hagnast miklu meira á því að eiga bankann en á því að selja hann. Hér skortir samkeppni og hér eru vextir, vaxtamunur og þjónustugjöld allt of há. Hér skortir frjálsa samkeppni á fjármálamarkaði og ég er ósammála fjármálaráðherra um að við höfum gert nægilegar breytingar á fjármálakerfinu eftir hrun.

Maður getur gert ein mistök. Það gerðum við þegar við einkavæddum bankana síðast. Hitt er stórum alvarlegra, að gera sömu (Forseti hringir.) mistökin aftur, og við þurfum að taka okkur miklu betri tíma í að gera umhverfið hér eðlilegt, koma á eðlilegum viðskiptaháttum og tryggja hagsmuni skattgreiðenda í þessu stóra máli.