145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

málefni flóttamanna.

[15:42]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að efna til umræðu um þetta gríðarlega stóra úrlausnarefni sem, eins og hv. þingmaður gat um, er ekki mál sem verður leyst á þessu ári og ekki á því næsta heldur kallar á að menn geri ráðstafanir til að búa sig undir það að þetta séu breytingar sem þurfi að takast á við á löngum tíma og það geti meðal annars kallað á endurskoðun Dyflinnarreglugerðarinnar og Schengen-samstarfsins sem reyndar virðist nú þegar vera komið í algjört uppnám. Það hefur ekki verið mjög traustvekjandi að fylgjast með því hvernig Evrópusambandslöndin hafa tekist á við þetta vandamál, hvert þeirra farið í sína áttina. Við hljótum að vona að það muni takast betur til næstu missirin að stilla saman strengi og líta á þetta heildstætt, en það er grundvallaratriði í þeirri stefnu sem hv. þingmaður vék að og stjórnvöld kynntu sl. laugardag, í fyrradag, að menn líti á vandann heildstætt en skoði ekki bara einn anga hans.

Með því á ég við að við þurfum hér heima fyrir í auknum mæli að líta á flóttamenn og hælisleitendur sem einn hóp. Ýmis hjálparsamtök, Rauði krossinn þar á meðal, hafa bent á þessa þörf og hún er orðin mjög knýjandi núna vegna þess að það hefur orðið slík grundvallarbreyting á því hvernig fólk kemur til landsins. Áður heyrði það algjörlega til undantekninga að menn kæmu hingað sem flóttamenn á eigin vegum og fengju dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Nánasti allir flóttamenn sem komu til landsins voru það sem kallað er kvótaflóttamenn. Það er rétt, sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi, að það er margt mjög flókið í þessu og tekur tíma að átta sig á því.

Það er ljóst að núna fer fjöldi þeirra sem koma hingað sem hælisleitendur og sækjast eftir því að fá stöðu flóttamanns mjög hratt vaxandi. Fjölgunin hefur verið um 50% á ári undanfarin ár, ár eftir ár, en nú lítur út fyrir að fjölgunin milli ára frá 2014–2015 verði nær 100%, þ.e. fari hátt í að tvöfaldast milli ára.

Við sjáum það að bara í ágústmánuði sóttu um 50 manns um hæli hér á landi og ég held að talan sé þegar að komast í þann fjölda í þessum mánuði. Nú þegar hafa 54, bara á þessu ári, fengið stöðu flóttamanns eða fengið hér hæli eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum sem eru miklu fleiri en á undanförnum árum. Það virðist ljóst nú þegar að þegar þetta kemur saman verði fjöldi þeirra sem fá stöðu flóttamanns hér á landi bara á þessu ári töluvert meiri en 100.

Það er mjög mikilvægt að huga líka að stöðunni í flóttamannabúðunum eins og við ræddum hér aðeins áðan í fyrirspurnatíma, í löndunum í kringum Sýrland og í Sýrlandi sjálfu, að fólk þar búi í fyrsta lagi við aðstæður sem eru eins góðar og hægt er að útbúa í flóttamannabúðum, a.m.k. að fólk svelti ekki og skorti ekki nauðsynlega hreinlætisaðstöðu og heilbrigðisþjónustu, en einnig að menn hafi einhverja von þannig að ekki sé verið að gefa fólki til kynna að það hafi enga framtíðarvon nema að það leggi líf sitt í hættu við það að reyna að komast ólöglega inn í Evrópu. Það er eitt af því sem er svo sérkennilegt við þessa nálgun alla að ef menn koma ólöglega inn í Evrópu og komast alla leið til Þýskalands þá hafa þýsk stjórnvöld lýst því yfir að þá verði menn boðnir velkomnir en hins vegar geta menn ekki komið með lögmætum hætti, ekki gefið sig fram við sendiráð eða komið með flugi sem er reyndar ódýrara en að kaupa sæti í smyglarabáti.

Þetta er eitthvað sem stjórnvöld í Þýskalandi og öðrum Evrópulöndum hljóta að huga að og þá velta fyrir sér hvort ekki þurfi í auknum mæli að fara þá leið sem við erum að boða hér á Íslandi, að gefa fleira fólki tækifæri til að koma beint úr flóttamannabúðum til Evrópulandanna, þ.e. það fólk sem uppfyllir þau skilyrði sem þarf að setja til að veita mönnum stöðu flóttamanns.