145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

málefni flóttamanna.

[15:50]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Umræðan um flóttamannavandann hefur verið, held ég, þessari þjóð og stjórnmálunum mjög holl undanfarið. Það er alveg komið að því að Íslendingar geri miklu betur en þeir hafa gert þegar kemur að málefnum flóttamanna. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að nú er mögulega komið að einhverjum tímamótum, að Íslendingar fari að leggja almennilega sitt af mörkum. Ég fagna yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um helgina, að það eigi að setja meiri fjármuni í þetta. Ég vonast líka til þess að á næstu dögum muni ég sjá nánari útfærslu á því hvernig þessum fjármunum verður varið en ég hef líka fullan skilning á því að það geti verið háð ýmsum þáttum sem liggja ekki endilega ljósir fyrir núna.

Það er margt sem þarf að gera og ég tek undir að það þarf að nálgast þetta heildstætt. Við erum ekki bara að taka á móti flóttafólki. Það eru líka mismunandi tegundir flóttafólks. Við þurfum líka að leggja okkar af mörkum á svæðunum þar sem hörmungarnar eiga sér stað. Það getum við gert með margs konar hætti eins og heilsugæslu, einhvers konar vatnsbúskap, menntun, hinu og þessu sem við getum mögulega lagt af mörkum.

Við þurfum líka að vera rödd á alþjóðavettvangi. Ég var að koma af ÖSE-þingi í Mongólíu ásamt hv. þm. Sigríði Andersen og þar bar þessi mál mjög á góma. Við þurfum að geta lagt okkar af mörkum í umræðunni og reyna að stuðla að einhverjum samtakamætti á alþjóðavettvangi. Þá þurfum við að vera með okkar á hreinu. Þá þurfum við að sýna eitthvert fordæmi. Hér er verið að stíga skref í þá átt.

Svo velti ég líka fyrir mér hvort ekki sé komið að þeim tímamótum að Íslendingar þurfi einfaldlega að hugsa 21. öldina í þessu. Hvar ætlum við að standa? Hversu opið þjóðfélag ætlum við að vera? Eigum við ekki að vera opið þjóðfélag? Erum við ekki of fá? Þurfum við ekki að vera fleiri? Þurfum við ekki líka að vera reiðubúin að skoða þetta einfaldlega út frá efnahagslegum markmiðum Íslendinga? Þurfum við ekki að fjölga okkur? Eru ekki bara tvær leiðir til þess? Það er sú leið sem við ræðum hér núna og svo hin. [Hlátur í þingsal.]