145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

málefni flóttamanna.

[15:54]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður. Ég vil jafnframt þakka fyrir niðurstöðu ráðherranefndarinnar um málefni flóttamanna og hælisleitenda. Mig langar að vekja athygli á hælisleitendum. Það eru um það bil 200 manns sem hafa sótt um hæli á Íslandi sem hafa farið með flugvél til Íslands. Margir þeirra og nú síðast eru sendir til baka. Mig langar til að vekja athygli á Medi frá Íran. Hann beið í sjö ár í Noregi og freistaði síðan þess að fá mál sitt tekið fyrir á Íslandi. Sjö ár án þess að mega vinna. Sjö ár án þess að mega taka þátt í samfélaginu. Og við ætlum í krafti Dyflinnarreglugerðarinnar að senda hann í burtu án þess að fá að heyra sögu hans.

Ég hef kynnst svo mörgum hælisleitendum sem hverfa síðan og það ber enginn ábyrgð á örlögum þeirra. En er það ekki þannig að við eigum, íslensk stjórnsýsla, að bera ábyrgð á örlögum þeirra sem við sendum burt, út í óvissuna?

Hér eru núna sýrlenskar fjölskyldur sem hafa komið til Íslands með flugi og það kæmi mér ekki á óvart ef einhverjar af þeim fjölskyldum yrðu sendar til baka út af ákvæðinu sem við notum allt of oft og kennt er við Dyflinni.

Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé ekki tilbúinn til að ganga sömu leið og fara að fordæmi Þjóðverja og hætta að beita þessu ákvæði, leggja til að ákvæðinu verði ekki beitt hérlendis, ekki aðeins gegn Sýrlendingum heldur gagnvart fólki frá Erítreu, þar sem líka er neyðarástand og það er neyðarástand í Afganistan. Við sjáum það bara ekki, það er enginn að tala um það. Við sjáum ekki lík barna þeirra og samt sendum við þetta fólk til baka.