145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir er sá þingmaður sem skemmst hefur setið á Alþingi. Mig rekur ekki minni til þess að þetta mál hafi komið til umræðu á síðasta vetri þegar hún dvaldi hér um stundarsakir sem varaþingmaður. Ég held að hv. þingmaður hafi ekki hlustað á þær umræður sem fram fóru í fyrra. Sannarlega sat hún ekki í utanríkismálanefnd þar sem þetta mál var rætt mjög ítarlega. En hv. þingmaður kemst að nákvæmlega sömu niðurstöðu og flestallir þeir sem farið hafa yfir þetta mál; hún finnur engin sérstök efnisleg rök fyrir því að menn ráðist í þessa breytingu.

Það er enginn sparnaður af þessari breytingu. Það er líklegt að þetta dragi úr söfnun og uppbyggingu þekkingar á málaflokknum innan ráðuneytisins. Eins og hv. þingmaður færði sterk rök fyrir er þetta valdþjöppun en ekki valddreifing.

Áðan ræddum við um málefni útlendinga sem leita hælis á Íslandi og flóttamanna. Það gekk eins og rauður þráður í gegnum alla umræðuna að þingmenn, jafnt stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar, vilja leggja sig fram um að ná samstöðu um málið.

Ég held næstum því allir sem haldið hafa ræður um þetta mál núna tvö þing í röð hafi lagst eindregið gegn því. Það liggur fyrir að í þessu tiltekna máli höfum við bent á að fyrir dyrum stendur sérstök úttekt á þróunarsamvinnu og fyrirkomulagi hennar af DAC-nefndinni, af þróunarsamvinnunefnd OECD, og það eina sem menn biðja um er að menn bíði eftir þeirri niðurstöðu. Bíðum eftir þeirri jafningjaúttekt, sjáum hvað kemur út úr því af rannsókn málsins af þeirra hálfu sem gerst þekkja.

Ég spyr hv. þingmann: Er ekki besta leiðin að gera það og hugsanlega sú eina til að ná samstöðu um málið?