145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:28]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Ég er bara alveg sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um við ættum að bíða eftir áliti frá þessari nefnd, ekki síst þar sem þetta á að vera einhvers konar jafningjaúttekt. Að sama skapi þarf þingið að vera svolítið lausnamiðað varðandi þetta mál. Það gerist þó ekki án þess að hæstv. utanríkisráðherra taki þátt í því. Búið er að biðja fólk um að bíða og ef hægt er að bíða er líka hægt að komast að annarri niðurstöðu.

Hæstv. utanríkisráðherra. Ef vandamálið er samskiptaleysi milli Þróunarsamvinnustofnunar og ráðuneytisins er kannski hægt að bæta það á einhvern annan hátt en með því að leggja þá tilteknu stofnun niður.

Stofnunin virðist vera að vinna gott starf og það er fyrir öllu. Ég hef slæma tilfinningu fyrir því að verið sé að reyna að þrýsta málinu í gegn. Ég skil ekki alveg af hverju verið er að gera það. Það virðist liggja eitthvað meira að baki. Ég skil það ekki og það kemur ekki skýrt fram í frumvarpinu sjálfu.

Þar fyrir utan væri alveg hægt að íhuga það að hafa þróunarsamvinnunefnd sem er ráðgefandi fyrir þessa stofnun eða eitthvað þess háttar. En ef það er vitað mál að niðurstöður jafningjaúttektar muni koma fram á næstu mánuðum ef ekki vikum er mjög eðlilegt að bíða eftir því að mínu mati.