145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði að þingmenn yrðu að vera lausnamiðaðir og hún tók sérstaklega fram að hæstv. ráðherra yrði að vera það líka. Ég er viss um að það mundi stuðla að farsælum lyktum þessa máls ef hæstv. ráðherra kæmi fram með röksemdir fyrir einhverjum af þeim fullyrðingum sem nema mátti úr framsögu hans og greinargerðum. Ég hegg eftir því að hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir hefur bersýnilega tekið þann boðskap úr máli hæstv. ráðherra að um tvíverknað sé að ræða, að um samskiptaleysi sé að ræða, að um skörun sé að ræða.

Það var nú heldur betur farið yfir þetta, hv. þingmaður, í utanríkismálanefnd í fyrra, yfir nákvæmlega þessa þætti gagnvart stofnuninni og líka gagnvart utanríkisráðuneytinu. Utanríkisráðuneytið fékk kost á að benda okkur á dæmi um eitthvað slíkt. Það kom ekki eitt einasta dæmi, um ekkert af þessu. Þvert á móti er í DAC-skýrslunni tekið sérstaklega fram að það hafi verið góð, lipur og snurðulaus samskipti milli ráðuneytisins og stofnunarinnar.

Eins og hv. þingmaður segir er eitthvað annað sem býr þarna að baki. (Forseti hringir.) Í öllu falli er hægt að kalla þetta duttlunga. (Forseti hringir.) Jafnvel má segja að hér sjáum við speglast hvernig framkvæmdarvaldið (Forseti hringir.) er búið að taka þingið ofurtökum. Nánast enginn þingmaður hefur lýst stuðningi við málið. Það verður samt keyrt hér í gegn.