145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur fyrir ræðuna. Ég verð að taka undir það, bæði með henni og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, sem talaði hér á undan mér, að rökin vanti algjörlega fyrir því hvers vegna hæstv. ráðherra er að leggja þetta frumvarp fram. Það sem sló mig er einmitt að ekki eru nefnd nein dæmi, hæstv. ráðherra nefnir engin dæmi því til stuðnings að það liggi svona brýn nauðsyn fyrir frumvarpinu.

Ég verð að segja fyrir mig að mér finnst mjög sérkennilegt, af því að þessu hefur margoft verið varpað fram hér í umræðunni, að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa svarað því og bent okkur á dæmin. Ég held að það mundi hjálpa umræðunni í þingsal talsvert mikið ef hann kæmi með þau. Við erum þá ekki að geta í eyður eða fletta sífellt í frumvarpinu í leit að dæmum sem ekki er að finna þar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að nú er hún að koma fersk, ef svo má segja, að þessari umræðu í vetur, hvort hún hafi einhvers staðar í umræðunni orðið vör við einhvern stuðning við þetta frumvarp. Við höfum þó nokkuð mörg talað hér gegn málinu, en finnur hv. þingmaður einhvers staðar fyrir stuðningi við málið annars staðar en frá hæstv. ráðherra?