145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:35]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Ég fylgdist með þessu frumvarpi á síðasta þingi þegar ég var hér varaþingmaður í heila viku, þá var þetta mál rætt. Eftir að hafa fylgst með umræðunum þá og umræðunum nú virðast ekki vera nein haldbær rök nema þau að þjappa eigi valdi. Það virðist vera eina ástæðan, einu haldbæru rökin, eða eitthvað sem hægt er að skilja.

Þetta virðast ekki vera hagræðingarrök. Það virðist bara vera pólitískt álit hæstv. utanríkisráðherra að þróunarsamvinnunefnd skuli vera pólitísk nefnd en ekki sjálfstæð stofnun sem geti til dæmis gagnrýnt sjálfstætt. Það virðist vera það helsta sem liggur í máli hæstv. utanríkisráðherra.

Ég verð því miður að vera algjörlega ósammála því, ef rök skyldi kalla. Mér þykir mjög ólýðræðislega farið að málinu, bæði nú og síðast. Ég las í gegnum þetta frumvarp og mér finnst hagræðingarrökin ekki sannfærandi í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað hér og einkanlega þar sem hin sérstaka DAC-skýrsla er að fara að koma út næstu missiri. Fyrir utan það hefur Þróunarsamvinnustofnun komið vel út í velflestum mælingum hingað til.

Ég skil þetta því ekki og það virðist vera erfitt að fá svör umfram það sem stendur í skýrslunni, þannig að ég veit ekki betur. Mér finnst þetta vera valdasamþjöppun frekar en valddreifing, sem ég er einfaldlega á móti.