145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og er með nokkrar spurningar sem varða einmitt tilgang þessarar niðurlagningar á stofnuninni.

Nú er það svo að þessi ríkisstjórn hefur sparað — í hverju? Jú, allhressilega í þróunarsamvinnu meðal annars. Enginn úr stjórnarliðinu hefur komið henni sérstaklega til varnar. Utanríkisráðherra hefur ekki verið tilbúinn til að berjast nógu hart fyrir þann málaflokk.

Við höfum líka séð að ríkisstjórnin hefur með geðþótta skorið niður í stjórnsýslunni, skorið niður í ráðuneytum íslenska ríkisins, sem er algjörlega eðlilegt að gera í samræmi við annan niðurskurð, en þarna var viðbótarniðurskurður á milli umræðna í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 frekar en 2014, þó að ég geti ekki lofað því.

Þannig er meðferðin á þróunarsamvinnu, þannig er meðferðin á stjórnsýslu og nú er nýtt stef frá formanni fjárlaganefndar, að grafa sérstaklega undan og tala um opinbera starfsmenn sem einhvers konar vandamál fyrir íslenska ríkið.

Þess vegna spyr ég: Eru í raun og veru einhverjar ástæður til þess að við hér í þessum sal, sem höfum nú reynt að berjast fyrir þróunarsamvinnu og stjórnsýslunni á Íslandi, sem við eigum öll saman og sem á að tryggja sameiginlega hagsmuni okkar, eigum að trúa því að þetta sé gert út af einhverjum sérstökum áhuga á þróunarsamvinnu?