145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:41]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svarið og spurninguna. Það virðist einhvern veginn vera meira stjórnað hér eftir geðþótta. Mér finnst ég sjá gamla Ísland skína í gegn þar sem valdasamþjöppun virðist vera stefið sem þessi ríkisstjórn vill syngja.

Þetta snýst nefnilega ekki beint um þróunarsamvinnu, þetta snýst um hver tilgangur stofnana er, hver tilgangur nefnda er, hvenær hlutir eiga að vera pólitískir og hvenær hlutir eiga að vera ópólitískir, alla vega ekki flokkspólitískir. Það er það sem þetta snýst miklu meira um.

Á gamla Íslandi, þar sem við erum bara með einn höfðingja sem á að ráða öllu, er voðalega slæmt að dreifa valdinu, sérstaklega þegar einhver stofnun getur verið ósammála hæstv. utanríkisráðherra í einhverjum málum. Það er náttúrlega voðalega óþægilegt fyrir málstað hans, mundi ég halda.

En það er nauðsynlegt að ríkisstjórnin og stjórnvöld séu með svona stofnanir einmitt til þess að hafa aðhald að þeirri stefnu sem ríkisstjórnin og þingið setur fram. Þetta er náttúrlega bara spurning um aðhald og það mun enginn annar fjármagna svona lagað en við því að það á bara að vera hluti af lýðræðissamfélaginu að hleypa fólki að borðinu sem er hálfpartinn fyrir utan þingið en samt einhvern veginn líka þar inni.

Það má segja margt um stofnanafyrirkomulagið en ég held að það sé betra en gamla Ísland þar sem einn ræður öllu og maður þarf að ganga í takt við hann.