145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands o.fl. (skipulag). Með þessu frumvarpi er verið að leggja til grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi þróunarsamvinnu Íslands með því að færa starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands inn í utanríkisráðuneyti og leggja stofnunina niður. Það er svolítið áhugavert að þetta er fyrsta þingmálið sem hæstv. utanríkisráðherra leggur fram og af því má draga þá ályktun að honum finnist málið mjög mikilvægt, fyrst að það þarf að vera í forgangi.

En líkt og fram hefur komið var þetta frumvarp einnig lagt fram á síðasta þingi og mætti þá verulegri andstöðu í umræðunni hér í þinginu. Það skyldi kannski engan undra. Það er nefnilega áberandi, þegar skýrslur um þróunarsamvinnu Íslands og Þróunarsamvinnustofnun eru lesnar, að starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar er góð; hún virkar vel og er, eftir því sem fram kemur, að skila góðum árangri. Stofnunin hefur ekki farið fram úr því fjármagni sem henni hefur verið úthlutað, hún heldur sig innan fjárlaga og sinnir svo sannarlega því mikilvæga verkefni sem henni er falið, þ.e. að bæta lífskjör fólks í fátækustu ríkjum heimsins.

Núgildandi lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu eru, líkt og hæstv. ráðherra sagði í framsögu sinni hér í síðustu viku, frá árinu 2008, en með þeim lögum var talsverð breyting gerð á fyrirkomulagi þróunarsamvinnu Íslands og heildstæð stefna mótuð.

Í aðdraganda þess að Ísland varð aðili að þróunarsamvinnunefnd OECD, DAC, árið 2013 var unnin sérstök rýni á umgjörð alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands. Það stendur meira að segja í athugasemdum þeim sem eru prentaðar með frumvarpinu að í úttekt DAC sé niðurstaðan sú að þróunarsamvinna Íslands byggist á traustum og faglegum grunni. Með leyfi hæstv. forseta, langar mig að lesa það sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu:

„Niðurstöður úttektarinnar voru jákvæðar og kom þar fram að þróunarsamvinna Íslands byggðist á traustum og faglegum grunni.“

Þetta stendur í fylgiskjali með frumvarpinu. Þar er þó jafnframt bent á að fram hafi komið ábendingar um einstaka atriði sem mætti gera betur eða öðruvísi. Raunar er það svo, líkt og bent hefur verið á hér í umræðunni, að fyrir liggur að strax á næsta ári sé niðurstöðu að vænta úr jafningjarýni DAC-nefndarinnar þar sem farið verður, geri ég ráð fyrir, nánar í það hvað það er sem betur mætti fara. Þetta atriði var talsvert rætt hér í þingsal í síðustu viku en í máli hæstv. ráðherra kom fram að við endurflutning þessa frumvarps hafi ekki komið til álita að bíða eftir þessari jafningjarýni DAC-nefndarinnar. Ég átta mig hreinlega ekki á því af hverju hæstv. ráðherra vill ekki bíða eftir niðurstöðunni og spyr því: Hver er tilgangurinn með því að gerbreyta kerfinu svona rétt áður en sú niðurstaða liggur fyrir? Er nema von að maður velti fyrir sér hvort hæstv. ráðherra sé jafnvel hræddur um að niðurstaðan verði hreinlega of jákvæð um ríkjandi fyrirkomulag og þess vegna sé bara eins gott að vera búinn að breyta hlutunum áður en niðurstaðan kemur?

Svo er það auðvitað sérstakt umfjöllunarefni, þegar við ræðum um umgjörð þróunarsamvinnu, að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa framlög til þróunarsamvinnu ekki verið aukin. Á síðasta kjörtímabili var metnaðarfull þróunarsamvinnuáætlun samþykkt af öllum þingmönnum nema einum, en sú áætlun var hins vegar felld úr gildi og önnur og minna metnaðarfull áætlun var samþykkt í fyrra. En ekki einu sinni sú nýsamþykkta áætlun heldur, því að útgjöld til þróunarmála verða samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 einungis 0,21% á næsta ári sem er það sama og er á þessu ári í staðinn fyrir að fyrst var lagt til að auka þarna aðeins í, ekki jafn mikið og áður hafði verið ákveðið en þó aðeins. Ísland er því langt frá því að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna um að 0,7% af vergri landsframleiðslu renni til þróunarsamvinnu.

Hæstv. forseti. Í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra frá því í maí síðastliðnum, um skipulag þróunarsamvinnu, sem gerð var samkvæmt beiðni nokkurra hv. alþingismanna, kemur fram að skýrslur DAC bendi ekki til að hægt sé að álykta sem svo að gæði starfsemi á sviði þróunarmála ráðist af því hvort hún fari fram innan sérstakrar stofnunar eða í ráðuneyti. Raunar bendir DAC á að árangur geti verið mjög breytilegur meðal ríkja sem hafi nokkuð svipað fyrirkomulag; það sem sé þó vitað sé að skýr ábyrgð, fagmennska og góð samhæfing séu lykilatriði því viðvíkjandi að nokkurt fyrirkomulag geti virkað og skilað árangri.

Maður hlýtur því að spyrja hvort hægt sé að sýna fram á að sú breyting að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður og færa verkefni hennar inn í utanríkisráðuneytið, eða þó ekki væri nema að minnsta kosti leiða líkur að því, yrði líkleg til þess að bæta gæði íslenskrar þróunarsamvinnu.

Hæstv. ráðherra verður tíðrætt um að þetta sé til að auka hagkvæmni og ná fram samlegðaráhrifum en það vantar hins vegar öll konkret dæmi um tvíverknað eða eitthvað sem væri í raun hægt að gera betur.

Ég fæ því ekki séð að sýnt sé fram á að sú yrði raunin og velti fyrir mér hvort það sé í besta falli óskhyggja í gangi um að svo yrði. Í skýrslu DAC kemur einmitt fram að skýr skil séu á milli vinnu ráðuneytisins annars vegar og Þróunarsamvinnustofnunar hins vegar og að góðum árangri hafi verið náð með því að láta þessa aðila vinna þéttar saman og að samvinna þeirra sé góð. Það stendur sem sagt í skýrslu hæstv. ráðherra sjálfs.

Stóra spurningin í þessu máli hlýtur því að vera: Af hverju að breyta því sem virkar vel? Þar kemur svo sem ýmislegt til greina. Í athugasemdum með frumvarpinu, þar sem fjallað er um markmið lagabreytinganna, segir á bls. 6, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að færa starfsemi ÞSSÍ inn í ráðuneytið er verið að tryggja að öll samskipti við erlend ríki og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu séu samstillt og í takt við utanríkisstefnu Íslands …“

Það segir hins vegar í niðurstöðum nýjustu jafningjarýni DAC, sem voru framkvæmdar á árunum 2012–2014, að greina megi áberandi stefnubreytingar hvað varðar sterkari tengsl þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála því að þó að kjarni þróunarsamvinnu sé enn þá afnám fátæktar hafi sífellt fleiri ríki styrkt tengslin á milli utanríkisviðskipta, utanríkisstefnu og þróunarsamvinnu og að mörg þeirra hafi komið þróunarsamvinnu inn í störf utanríkisráðuneytis með formlegum hætti.

Það er mikilvægt, þegar fjallað er um þetta, að hafa í huga að í 3. gr. þess frumvarps sem við ræðum hér er jafnframt gert ráð fyrir því að ráðherra skipi fulltrúa í þróunarsamvinnunefnd og að fimm þessara fulltrúa verði úr hópi alþingismanna og kosnir af Alþingi. Mér finnst að hér þurfi að staldra við og velta fyrir sér á hvaða vegferð þróunarsamvinna sé. Er hér verið að færa hana í pólitískan búning?

Það kemur fram í umsögnum með frumvarpinu, frá því að það var lagt fram í fyrra, að bæði Alþýðusamband Íslands og félagsvísindasvið Háskóla Íslands gjalda varhuga við að verið sé að blanda saman pólitískum eða diplómatískum áherslum og þróunarsamvinnu og því að framlagsríki þróunarsamvinnu fari að reka hana með eiginhagsmuni að leiðarljósi en ekki með hagsmuni hinna fátæku ríkja sem eru þiggjendurnir.

Mér finnst gríðarlega mikilvægt að við sem ein af auðugustu þjóðum heims veltum þessu fyrir okkur. Það kom fram í umræðum hér í síðustu viku, hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á það, að fyrir einhverjum áratugum hafi þróunaraðstoð eða þróunarsamvinna meira verið á forsendum veitandans en svo hafi ekki verið síðustu ár. Ég ætla svo sannarlega að vona að við séum ekki á leið þangað aftur.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti einnig á að ekkert væri óeðlilegt við það að þjóðir færu í verkefni á sviði þar sem þær hefðu sérstaka þekkingu og nefndi þar til sögunnar jarðvarmaverkefni og fiskveiðar. Ég er alveg sammála því. Það er ekkert skrýtið að við leggjum okkar af mörkum í efnum þar sem við höfum haldgóða þekkingu og mikla reynslu, en það er líka allt annað en að veita aðstoðina á forsendum okkar eða á forsendum þeirra sem þiggja aðstoðina.

Ég vil í því samhengi nefna að það er líka mikilvægt að setja fjármuni í verkefni sem eru kannski ekkert svo spennandi fyrir íslenska aðila eins og það að grafa brunna eða skapa hreinlætisaðstöðu, en það eru líka alveg gríðarlega mikilvæg atriði.

Hæstv. forseti. Ég sé að tíminn er að hlaupa frá mér. Ég vil því að lokum bara segja að ég hef ekki séð nein rök færð fyrir því hvers vegna leggja ætti fram þessar breytingar á Þróunarsamvinnustofnun Íslands (Forseti hringir.) og legg því hreinlega til að þetta frumvarp verði lagt til hliðar.