145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Ég er líka búin að velta þessu mikið fyrir mér, rökunum, skortinum á dæmunum, sem ég hefði haldið að væri svo eðlilegt að tiltaka til þess að sýna fram á það sem betur mætti fara. En því meira sem ég les og því betur sem ég kynni mér málið þeim mun meira finn ég af upplýsingum um það að fyrirkomulagið eins og það er núna virki vel. Þess vegna, svo að ég segi það bara aftur, skil ég ekki af hverju við ætlum ekki að bíða eftir jafningjarýninni frá DAC. Auðvitað er alltaf eitthvað sem betur má fara, skárra væri það nú, en það að fara að umbylta kerfinu korteri áður en jafningjarýnin kemur skil ég ekki.

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvað geti legið að baki því að taka eina stofnun inn í ráðuneyti. Þó að við séum gríðarlega mörg þeirrar skoðunar að við veitum ekki næga fjármuni í þróunarsamvinnu held ég að allir séu sammála um að það sé framtíðarmúsík að setja meiri peninga í það. Þá finnst mér alveg rétt að velta því fyrir sér að nú þegar fara rúmir 6 milljarðar í þróunarsamvinnu á Íslandi og verður meira í framtíðinni: Er það kannski eftirsóknarvert fyrir eitt ráðuneyti að fá slíka fjármuni inn í ráðuneyti til sín og (Forseti hringir.) geta sjálft ráðið hvernig þeim verði ráðstafað? (Forseti hringir.) Ég veit ekki, en mér finnst að við eigum að velta því fyrir okkur.