145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef trú á því að þetta sé frekar fjárhagslegs eðlis en faglegs. Það hefur komið fram í þessari umræðu að það sé svolítið ósvífið af hæstv. ráðherra að nota skýrsluna frá DAC, sem var gerð um íslenska þróunarsamvinnu þegar við gengum þangað inn, sem einhvern rökstuðning með þessu. Í henni er farið gríðarlega lofsamlegum orðum um íslenska þróunarsamvinnu. Eitt af því sem vakti athygli mína í því öllu saman var að þar kemur fram að dreifing valds frá höfuðstöðvunum og til útstöðvanna á þeim svæðum þar sem Þróunarsamvinnustofnun er með starfsemi gerir stofnunina sveigjanlegri en ella til að bregðast við þörfum heimamanna. Það er nú það sem þetta gengur allt út á. Það eru ekki okkar duttlungar sem eiga að ráða för heldur þarfir heimamanna.

Þá veltir maður því fyrir sér þegar menn ætla núna að fara að grauta þessu öllu saman inn í starfsemi utanríkisráðuneytisins, allri þessari faglegu vinnu og faglegu þekkingu sem hefur safnast saman í Þróunarsamvinnustofnun, hvað verði um þessi element þegar menn eru komnir með risastóra stjórn yfir þetta. Það er einhvern veginn svo óskýr mynd af þessu.

Ég verð að segja eins og er að mér finnst hin faglegu rök skorta. Ég vona að ráðherrann taki sig til í lok umræðunnar og reyni að segja okkur aðeins betur frá þeim faglegu sjónarmiðum sem að baki þessu búa, vegna þess að þau eru ekki hér, þau koma hvergi fram. Það eina sem við höfum í höndunum frá stjórnmálamönnum og frá flokkssystkinum hans eru yfirlýsingar formanns fjárlaganefndar, þegar hún kom út úr vinnu hagræðingarnefndarinnar, um að draga ætti saman útgjöld til þróunarmála.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að koma hingað (Forseti hringir.) og bera á borð fyrir okkur tilbúin fagleg rök þegar ljóst er að menn lögðu af stað í leiðangurinn (Forseti hringir.) með þetta að augnamiði.