145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:08]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég las það einhvers staðar, þó að ég hafi ekki fundið það í pappírunum mínum, að mikilvægt sé að sterk pólitísk forusta sé til staðar þegar kemur að þróunarsamvinnumálum. Ég skildi það sem svo að mikilvægt væri að einhver með pólitíska forustu talaði fyrir því og berðist fyrir því að fjármagn færi í málaflokkinn. Ég skildi það ekki sem svo að það væri hans að ákveða hvernig því fjármagni yrði síðan varið.

Ég held að það sé hárrétt, sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefndi, að það hefur verið mikilvægt að þeir sem starfa úti á akrinum geti brugðist við og geti lagt mat á hvaða verkefni séu brýnust og hvað eigi að fara út í, að það sé ekki gert í einhverri miðlægri fjarlægri stofnun á skrifstofu í annarri heimsálfu. Mér finnst eins og verið sé að nýta sér það að pólitísk forusta þurfi að vera fyrir málaflokknum sem rök fyrir því að láta flokkspólitík ráða því hvernig fjármagninu er stýrt. Ég held að það hafi aldrei átt að vera tilgangurinn með þróunarsamvinnu, heldur eigi það þvert á móti að vera markmið hinnar pólitísku forustu að tryggja fjármagnið og láta svo fagaðila á staðnum um að ráðstafa því.