145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hið lógíska niðurlag í ræðu hv. þingmanns var að þetta mál yrði lagt til hliðar og menn gleymdu því í bili. Það er auðvitað tímanna tákn að ekki nokkrum af þeim sem hér hefur haldið ræður hefur tekist að sjá neitt jákvætt sem í reynd styður framgang málsins. Þó er ein heiðarleg undantekning og það er sá sem situr í grásprengdum virðuleik beint fyrir aftan mig, hæstv. þingforseti, en við vitum öll að hann má ekkert aumt sjá án þess að vilja liðsinna því og hjúkra.

Hv. þingmaður sýndi að þeir sem hafa haldið ræður um þetta mál hafa kynnt sér það. Hv. þingmaður rakti nokkur ummæli úr greinargerðinni sem voru einmitt þau ummæli sem ég hef haft hvað hörðust orð um, ummæli sem teikna sig til þess að stofnunin sinni ekki sínu verki, hún sé til trafala, hún sé jafnvel með einhvers konar aðra stefnu en utanríkisráðuneytið, það sé skörun og tvíverknaður.

Hv. þingmaður sem hefur lesið heima er búin að kynna sér síðustu jafningjarýni DAC-nefndarinnar, þróunarsamvinnunefndar OECD, og þar er komist að allt annarri niðurstöðu en þeirri sem með alls konar ýjunum og dylgjum er lögð á borðið með ræðu og greinargerð hæstv. ráðherra. Mér finnst það skipta máli vegna þess að ég vil ekki, hvernig sem þetta mál fer, að það endi með því að ef stofnunin verður lögð niður sé grafskriftin sú að það hafi verið nauðsynlegt af því að stofnunin sem hefur staðið sig ákaflega vel hafi með einhverjum hætti farið út af brautinni. Það er það sem ég á erfiðast með að sætta mig við í málflutningi ríkisstjórnarinnar.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hlusta á sérfræðinga. Hv. þingmaður las upp úr umsögn félagsvísindasviðs háskólans, eða ég tók það svo að hún væri að vitna í hana, og niðurstaða þess var algjörlega (Forseti hringir.) afdráttarlaus, það sé óráð að leggja stofnunina niður. Félagsvísindasvið leggur til að öll þróunarsamvinna verði flutt út úr ráðuneytinu og inn í stofnunina. Ber ekki að taka mark á því, hv. þingmaður?