145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rosalega sérstakt þegar maður fer að kynna sér þetta mál og byrjar á að lesa frumvarpið sjálft og athugasemdirnar sem því fylgja að sjá þar, einmitt líkt og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, alls konar ýjanir um leið og maður reynir að kafa dýpra, les skýrslur, m.a.s. þá skýrslu sem hæstv. ráðherra lagði fyrir þingið síðasta vor, ekkert nema ýjanir. Það eru engin dæmi og engin rök og ef bakgrunnstextinn er aðeins skoðaður er hægt að lesa það gagnstæða við það sem lagt er til með þessu frumvarpi. Mér finnst þetta sannast sagna verulega furðulegt því að ég fæ ekki séð annað en að greinargerðin með frumvarpinu sé í besta falli full af einhvers konar hálfsannleik ef það er meira að segja hægt að tala svo jákvætt um það sem þar er sagt. Í því sem ég hef verið að leita mér að upplýsingum um Þróunarsamvinnustofnun finn ég hvernig neitt annað en jákvætt um hana.

Varðandi spurninguna, já, þá hefði ég talið að það ætti að hlusta á fagaðilana, sérstaklega ef þeir færa fram einhver rök máli sínu til stuðnings, fara þá akkúrat í hina áttina og taka þetta alfarið eða í meira mæli út úr ráðuneytinu og setja undir sérstaka Þróunarsamvinnustofnun.