145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður benti á er ekki sjálfgefið að eitt tiltekið fyrirkomulag á þróunarsamvinnu hafi einhverja yfirburði yfir önnur. Þessi mál hafa þróast með mismunandi hætti hjá mismunandi ríkjum. Eiginlega er niðurstaðan af því sem hefur komið út úr rannsóknum á því hvaða fyrirkomulag hentar best það að þar sem er sterk pólitísk forusta er árangurinn mestur, burt séð frá því hvernig fyrirkomulagið er. Það er ekki þannig að Ísland rói eitt á báti. Það fyrirkomulag sem er að finna hér á landi er mjög svipað því sem er að finna hjá meiri hluta þeirra ríkja sem eru í DAC-hópnum svokallaða. Þessar upplýsingar hef ég úr skýrslu sem var vísað til í einni af umsóknum sem var beint til okkar á síðasta ári. Ísland er í hópi með ríkjum eins og Tékklandi, Frakklandi, Þýskalandi, Japan, Lúxemborg, Suður-Kóreu, Spáni, Svíþjóð og Bandaríkjunum. Síðasta ríkið sem bættist í þennan hóp var Ítalía sem gjörbreytti sínu kerfi að vandlega yfirlögðu ráði og tók upp fyrirkomulagið sem hæstv. ráðherra segir að sé ekki hentugt á Íslandi. Raunar talar hæstv. ráðherra eins og þetta sé eitthvert úrelt fyrirkomulag þó að þetta sé það sem stuðst er við í fjölda ríkja, og ekki bara það, ýmis ríki hafa tekið þetta upp. Þá kem ég að punkti sem ég vil leiðrétta úr máli mínu frá því að ég talaði við hv. þingmann um daginn. Hún spurði mig um samtvinnan utanríkismála og útflutningsverslunar. Ég sagði henni þá, og er enn þeirrar skoðunar, að það sé ekki það sem vakir fyrir hæstv. ráðherra en ég fór hins vegar heim, las mér betur til og komst að því að í sumum löndum hefur verið þróun til þess, t.d. í Hollandi. Hvert er eitt af löndunum (Forseti hringir.) sem okkur var bent á að hefði verið að breyta sínu fyrirkomulagi? Það er Holland. Það liggur algjörlega ljóst fyrir hvað Hollendingar eru að gera en hæstv. ráðherra hefur sagt að hann vilji ekki fara í það fótspor.