145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held nefnilega að með umræðunni hérna séum við að færa okkur smám saman aðeins nær kjarnanum og ræða okkur niður á það hvernig við viljum alls ekki sjá þróunasamvinnumálunum farið. Það er spurning með hina skýru pólitísku forustu, hvað hún þýðir og hvernig eigi að vinna með hana. Ég vil vinna með hana á þann hátt að einhver málsvari innan ríkisstjórnarinnar passi upp á það og haldi því til haga að við Íslendingar eigum að setja aukna peninga, aukið hlutfall af landsframleiðslu okkar, í þróunarsamvinnumálin og leggja þannig fátækari löndum í heiminum lið. Ég er hins vegar algjörlega á þeirri skoðun að hin skýra pólitíska forusta eigi ekki að vera til þess að vinna hagsmunum Íslands á einhvern hátt brautargengi í gegnum alþjóðlega þróunarsamvinnu. Það er bara rangur vettvangur og ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér sérstaklega dæmið um þá leið sem Hollendingar hafa farið en mun hins vegar gera það í kjölfarið á þessari umræðu, bara til að koma betur nestuð inn í starf hv. utanríkismálanefndar.

Ég vil bara endurtaka og segja það skýrt að mér finnst alveg kolröng vegferð að ætla að fara út í það að nota þróunarsamvinnu sem (Forseti hringir.) einhvers konar stökkpall fyrir íslenska hagsmuni. Við eigum alltaf að líta á hagsmuni þiggjanda aðstoðarinnar, ekki hvað kæmi sér best fyrir okkur í því tiltekna máli.