145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mig langar að leggja nokkur orð í belg um þetta mál. Ég hef fylgst með umræðunni, einkum hér í dag. Ég gat ekki verið við hana alveg alla á fyrri hluta fundar um þetta mál en ég hef áhuga á þessum málaflokki og hef lengi borið hann fyrir brjósti, ef svo má að orði komast, og reynt að fylgjast með því hvernig við Íslendingar stöndum að verkum í þeim efnum. Ég hef reyndar lengi verið frekar niðurlútur þegar kemur að því að fjalla, t.d. á alþjóðavettvangi eða í norrænum samanburði, um frammistöðu okkar á þessu sviði. Hún hefur verið bágborin. Við Íslendingar vorum ansi lengi að hafa okkur upp úr því fari að við værum eiginlega þiggjendur og ættum að vera á þessu sviði þangað til við fórum að byggja upp örlitla aðstoð af okkar hálfu, enda þá orðin á meðal ríkustu þjóða heims. En það hefur gengið alveg hreint sorglega hægt að koma því í það horf til dæmis sem þykir tiltölulega sjálfsagt mál annars staðar á Norðurlöndunum og í velflestum velmegandi ríkjum sem við viljum bera okkur saman við á góðum degi, eins og annars staðar á Norðurlöndunum og Vestur-Evrópulönd eða þróuð lönd eins og Kanada, Nýja-Sjáland, Ástralía o.s.frv.

Ég ætla aðeins að koma betur að því síðar því að mér finnst það hanga saman. Það er í sjálfu sér ekki einangrað mál að ræða hér eitthvert innra skipulag þessara mála í ráðuneyti og stofnun. Mér finnst að það gefi fullt tilefni til þess að ræða stöðu málaflokksins í heild, m.a. vegna þess að það endurspeglar vissar áherslur eða vissa forgangsröðun, finnst mér, að þetta skuli vera sett í öndvegi af hæstv. ráðherra hér tvö þing í röð. Mig skortir eiginlega alveg rökin fyrir því, ég verð að segja alveg eins og er, að standa í þessu þegar ljóst er að málið er umdeilt og er ekki samstaða um það. Ég hélt satt best að segja að hæstv. ráðherra hefði nóg annað að gera og að margt annað væri brýnna. Það allra nærtækasta finnst mér að ráðherra notaði þá meira af kröftum sínum í að berjast fyrir auknum fjárveitingum til þróunarsamvinnu þannig að hann gæti að minnsta kosti staðið við sína eigin, ég leyfi mér að segja, metnaðarlausu áætlun um að nudda þessu til dæmis á næsta ári upp í 0,23% af vergri landsframleiðslu. Það var allt og sumt sem átti að gera. Það er langt í land að við komumst hálfa leið upp í 0,7%.

Ég rifjaði hér upp aftur og fór að kíkja í fjárlagafrumvarpið og textann þar til að skoða þetta og það er því miður þannig, niðurstaðan er sú að þetta á að standa óbreytt milli ára sem hlutfall af vergri landsframleiðslu þriðja árið í röð. Þessi ríkisstjórn virðist föst í því að hækka þetta ekki neitt. Og það hlýtur að teljast frekar dapurlegt, þetta er langt frá þeirri áætlun sem menn afgreiddu hér af nokkrum metnaði, hvort það var á árinu 2012, ætli það hafi ekki verið þá sem menn töldu að í krafti þess að betur væri að fara að ára yrði hægt að fara að bæta í þennan málaflokk og Ísland gæti reynt að fara að gera betur í þeim efnum og ná máli. Það var síðan endurskoðað og skorið mjög niður en átti þó örlítið að hækka sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hjá hæstv. ráðherra í áætlun sem hann var með hér síðastliðið ár en nú birtist fjárlagafrumvarpið og framlagið á að standa í stað.

0,02 prósentustig af vergri landsframleiðslu eru að verða talsverðir fjármunir. Við sjáum að landsframleiðslan á fyrri helmingi þessa árs er að nafnvirði einir 1.060 milljarðar, ef ég man rétt, þannig að hún fer sennilega vel yfir 2.100 milljarða á þessu ári. Með 3% hagvexti á næsta ári sjáum við að þetta er kannski að nálgast 500 millj. kr., 0,02 prósentustig af vergri landsframleiðslu, þannig að það munar nú um þá fjármuni sem vantar upp á bara til að fjárlagafrumvarpið mæti þeirri áætlun sem síðast var birt og þótti hún þó frekar metnaðarlítil.

Hvers vegna að standa í þessu, hæstv. ráðherra? Ég held að það vanti sterkari rök. Hér í greinargerðinni er þessi mikli texti um samþættingu og hvað þetta nú er, en hann dugar mér ekki vegna þess að það er í raun og veru ekki reynt mikið að benda á ágallana og vandamálin sem eigi þá að leysa með þessari breytingu, enda kannast maður ekki almennilega við þau. Ég tel mig hafa fylgst alveg ágætlega með þessu, bæði sem alþingismaður og utan frá, oft í utanríkismálanefnd, gegnum fulltrúa í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar og með fleiri leiðum, farið í ferðir á vegum sem þessi stofnun hefur skipulagt og þar fram eftir götunum. Ég kannast hreinlega ekki við það að það hafi verið sérstök vandamál þarna uppi. Ég held að Þróunarsamvinnustofnun hafi einmitt núna allra síðustu árin kjarnað starfsemi sína mjög vel, sú breyting var tvímælalaust rétt að fækka samstarfslöndunum og gera þá betur og nýta takmarkaða fjármuni með því að vera með sterkari viðveru en í færri löndum. Almennt hef ég hreinlega ekki orðið var við annað en að stofnunin væri vel rekin, hún er auðvitað undir forustu mikils fagmanns sem er á alþjóðavísu með virtari mönnum í þessum efnum, enda á hann að baki langan og farsælan feril hjá alþjóðlegum stofnunum á þessu sviði, þannig að ekki er þar nú í kot vísað. Við erum ekki að tefla fram einhverjum skussa þar sem er forstjóri stofnunarinnar í dag og árangurinn nokkuð góður. Þá þurfa menn býsna sterk rök til að hrófla við því skipulagi sem hefur gefist allvel.

Tökum þá til dæmis þessi samþættingarrök, það geta verið tvær hliðar á því máli, herra forseti. Nú er það svo að Þróunarsamvinnustofnunin annast auðvitað tvíhliða þróunarsamstarfsverkefni okkar og þar geta oft verið vandasöm verkefni, pólitískt að velja. Það er oft ekkert einfalt mál að fara með þróunarstarf inn í lönd þar sem stjórnarfarið er kannski svona og svona og það þarf að reyna að halda allri pólitík og allri tortryggni í burtu, eins langt og mögulega er hægt.

Við erum almennt þeirrar skoðunar, ekki satt? að svo fremi sem stjórnvöld láti starfið í friði þá eigi bágstatt fólk ekki að gjalda þess þótt stjórnarfarið kunni að vera upp og ofan. Ég veit ekki til þess að við höfum í sjálfu sér látið pólitík aftra því sérstaklega, svo fremi sem menn teldu að það væru sæmileg starfsskilyrði fyrir hendi til að sinna árangursríkri þróunarsamvinnu. Auðvitað er það ekki hægt sums staðar, því miður, og þá verða menn að horfast í augu við það. Ég tel þar af leiðandi að það séu miklir kostir við það að starfrækja tvíhliða þróunarsamstarfsverkefnin í faglegri óháðri stofnun. Það er ákveðin fjarlægð frá utanríkispólitíkinni sem hér er hins vegar notað sem rök að þurfi að samþætta þróunarsamvinnuna við. Svo segir hér á bls. 6, með leyfi forseta, undir fyrirsögninni Sterkari tengsl milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála:

„Með því að færa starfsemi ÞSSÍ inn í ráðuneytið er verið að tryggja að öll samskipti við erlend ríki og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu séu samstillt og í takt við utanríkisstefnu Íslands, auk þess sem íslensk stjórnvöld tali þá einni röddu um þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi.“

Hvað er verið að gefa í skyn? Hefur það ekki verið? Hafa verið brögð að því að menn hafi talað tungum tveim um þróunarsamvinnu af Íslands hálfu? Og þá stofnunin haft eina rödd og ráðuneytið aðra? Það er væri fróðlegt að heyra þá til hvaða dæmanúnings eða árekstra er verið að vísa með þessum skrýtna texta.

Ég tel að það megi færa býsna sterk rök fyrir því að einmitt þetta fyrirkomulag hafi sína kosti, að hafa vandasöm tvíhliða þróunarsamvinnuverkefni í sjálfstæðri fagstofnun, sem að sjálfsögðu er þá ekki pólitísk nema í þeim afar óbeina skilningi að hún heyrir undir pólitískt ráðuneyti eða pólitíska ráðherra og starfsemin fer fram á ábyrgð hans, en þetta er sjálfstæð stofnun sem starfar á grundvelli sjálfstæðisákvæðis í lögum, er með stjórn eða ráðgjafarnefnd og til þess er hægt að vísa að einmitt hún blandast ekki inn í almennar utanríkispólitískar áherslur að öðru leyti.

Menn hafa oft rætt um að tengja ætti betur þróunarsamvinnu og viðskipti og útflutningshagsmuni. Maður heyrði oft þau rök hér á árum áður og þá var litið þannig á að við ættum eiginlega að reyna að græða pínulítið á þessu í leiðinni, selja vörur og framleiðslu okkar og koma henni á markað. Sú frumstæða hugsun var sums staðar á ferðinni í alþjóðlegri þróunarsamvinnu hér á árum áður. Nú er hún bannorð, nú vilja menn fyrir alla muni ekki vera tortryggðir um það að þeir standi ekki í þróunarsamvinnuverkefnum á faglegum, vönduðum forsendum og það séu einhver undirmál og eitthvað á bak við. Gildir ekki sama um hina pólitísku utanríkisstefnu? Er ekki ágætt að tvíhliða þróunarsamvinnuverkefnin séu vel aðgreind frá henni? Það þarf enginn að velkjast neitt í vafa um það að við erum ekkert að ætlast til að ná einhverju öðru fram í leiðinni, skora pólitísk mörk eða ná utanríkisstefnu okkar sem slíkri fram á einhvern hátt í gegnum þróunarsamvinnu. Þar er í öndvegi að aðstoða fólkið, svæðin, löndin sem í hlut eiga eins vel og mögulegt er með vönduðum og faglegum vinnubrögðum og það á ekkert annað að blandast inn í það. Það á að vera eini tilgangurinn með því, að aðstoða þá sem í hlut eiga til sjálfsbjargar og þróunar.

Ég tel í sjálfu sér, virðulegur forseti, að það megi færa sterk rök gersamlega gegn þessum texta. Hann dugar mér ekki né neitt annað sem ég hef heyrt hér sem bendi endilega til þess að þetta sé skynsamleg breyting. Og þá spyr maður sig: Til hvers að standa í þessu? Hefur hæstv. utanríkisráðherra ekki eitthvað annað þarfara að gera? Er þetta orðið að einhverju forgangsmáli eða metnaðarmáli af því að málið mætti andstöðu hér í fyrra? Ekki getur það verið að ráðherra sé orðinn þrjóskur og vilji ekki láta undan þeim mótbárum og þeirri gagnrýni sem málið hefur sætt í þinginu.

Að síðustu nefni ég að það er svo vont fyrir viðkvæman málaflokk af þessu tagi ef ekki er hægt að hafa um hann sæmilega pólitíska sátt. Í gegnum tíðina hafa menn alltaf reynt að leggja áherslu á það, m.a. með því að hafa góða þverpólitíska skipan í stjórn þessarar stofnunar eða tengja hana þannig við stjórnmálin í heild sinni. Menn spurðu stundum hér á árum áður: Til hvers að vera að hafa stjórn yfir þessari stofnun? Gott ef ekki voru einhvern tímann uppi hugmyndir um að slá hana af, en þá voru rökin sem kannski vógu þyngst fyrir því að hafa hana áfram að tengja alla stjórnmálaflokka við þessa starfsemi og reyna að hafa þverpólitískan frið um hana. Þetta er ekki hjálplegt í þeim efnum, það er eiginlega verið að búa til vandamál og deilur.

Menn hafa nefnt að kannski væri smávopnahlé í þessu máli að sættast á að bíða átekta til að fá þá úttekt sem ég læri hér að sé í gangi á vegum þróunarsamvinnunefndar OECD, DAC-nefndarinnar, og það eru svo sem ekki verri rök en hver önnur. Væri þá gaman að heyra frá hæstv. ráðherra ef þingið eftir umfjöllun um þetta kæmist að þeirri niðurstöðu að við dokuðum við, er það nokkurt vandamál af hálfu hæstv. ráðherra? Er það ekki bara ágætisniðurstaða? Kannski hæstv. ráðherra vildi vera svo góður að svara því fyrir lok umræðunnar, vegna þess að þá geta menn að minnsta kosti skoðað þann möguleika í staðinn fyrir að takast á um þetta mál og afgreiða það svo kannski að endingu í bullandi ágreiningi og eyða umtalsverðum tíma í það í vetur, sem mér finnst ómögulega hægt að flokka sem eitthvert mikið forgangsmál, ef það gæti orðið lendingin að doka við. Þá er ekkert verið að slá af einhverjar skipulagsbreytingar til framtíðar litið en þessu væri gefinn aðeins tími til að þroskast.

Ef það eru einhver vandamál, einhverjir hnökrar, eitthvað sem menn ætla að leysa með þessu, sem liggja fyrir og eru skýrir, væri gott að fá þá fram vegna þess að þá væri hægt að skoða hvort til væru fleiri leiðir til að leysa úr þeim vanda ef einhver er. Ef það er einhver skortur á samstarfi milli stofnunarinnar og ráðuneytisins, sem ég hef nú ekki heyrt um, eru náttúrlega margar leiðir til að bæta úr því. Einfaldasta nálgunin er ekki að leggja þá bara stofnunina niður. Það eru dálítið groddaleg vinnubrögð. Auðvitað á það sér fordæmi í sögunni, samanber Þjóðhagsstofnun forðum þegar menn voru ekki ánægðir með þjóðhagsspár hennar, en það var nokkuð langt gengið að leggja stofnunina niður af því að menn voru (Forseti hringir.) óánægðir með eitthvað í fari hennar eða starfi. Það eru til millivegir, herra forseti.