145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:35]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð hans, hann þekkir málið og hefur fylgst með því í töluvert langan tíma. Ég er eins og hann eitt stórt spurningarmerki yfir því hvaða vanda sé verið að leysa. Ef eitthvað er þá finnst mér öll gögn málsins benda til þess að við séum að fara úr fullkomlega góðu fyrirkomulagi, sem örugglega má laga einhverja hnökra á hér og þar, yfir í algjöra óvissu. Verið er að grauta saman hlutum sem eiga ekki saman. Þróunaraðstoð er sérgrein, þetta er fag, þetta er ótrúlega viðkvæmur málaflokkur og mikilvægt er að vel sé haldið utan um með hvaða hætti farið er með aðstoð inn í ólíkar samfélagsgerðir, ég tala nú ekki um samfélagsgerðir sem eru ólíkar okkar. Þar er fagfólk sem hefur sérhæft sig á því sviði og því hef ég mjög miklar efasemdir um að fara eigi að grauta því saman við aðra starfsemi utanríkisráðuneytisins.

Ég held að eitthvað hefði heyrst ef mönnum hefði dottið í hug, og ég hef tekið það dæmi að taka Ferðamálastofu inn í atvinnuvegaráðuneytið. Stofnanirnar eiga að gegna ákveðnu hlutverki og síðan er fylgst með því úr ráðuneytunum að þær séu að gera það sem þær eiga að gera. Ég held að við séum komin hér yfir á dálítið hálan ís og verið sé að skapa fordæmi sem ég veit ekki hvar gæti endað, þ.e. ef ráðherra dettur í hug út frá eigin duttlungum að því er virðist að taka til sín eina stofnun inn í sitt ráðuneyti til að fegra reikningana og lækka einhvern kostnað, þá erum við komin út á hálan ís hvað faglega stjórnsýslu varðar. Mig langar að fá aðeins sjónarmið hv. þingmanns á þessu.