145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er alveg til í að fjalla um þennan þátt málsins. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er auðvitað angi af þeirri stefnu sem stjórnvöld hvers tíma þurfa helst að hafa; hvernig sjá þau fyrir sér uppbyggingu stjórnsýslunnar, hvaða verkefni er eðlilegt eða óumflýjanlegt að hafa í ráðuneytum og hvað er betra að hafa í sjálfstæðum stofnunum og hafa eitthvert samræmi í því. Ég er ekki viss um að það risti djúpt hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn. Er það almenn stefna ríkisstjórnarinnar að þenja ráðuneytin út og draga þangað inn verkefni úr undirstofnunum? Er það stefnan? Er þetta frumvarp í samræmi við það? Eða er það bara hipsumhaps eftir því hvað hentar hverju sinni? Mér er nær að halda það.

Það er svo sem ekki nýtt af nálinni að svolítið ósamræmi sé í þessu í Stjórnarráði okkar eða stjórnkerfinu. Ég lenti í því á hinni öldinni að gegna tveimur gjörólíkum ráðuneytum samtímis þar sem annað ráðuneytið hafði lengi verið rekið með þeirri stefnu að hafa ráðuneytið sem litla yfirstjórn en efla stofnanirnar sem undir því voru og fela þeim verkefnin, enda voru þær stórar og öflugar, Vegagerðin, Siglingamálastofnun, Póstur og sími eða hvað það var. Hinum megin var landbúnaðarráðuneytið þar sem alls konar verkefni, praktísk verkefni, voru í ráðuneytinu sem hefði auðvitað fyrir löngu verið betra að koma út í einhverja stjórnsýslustofnun, eins og má segja núna að hafi verið gert með Matvælastofnun.

Hér erum við að vísu með fyrirbæri sem er svolítið annars eðlis þar sem er þróunarsamvinnan. Þar þarf kannski að huga að fleiri þáttum en bara hinum skipulagslegu innan lands, þ.e. verkefnið sem verið er að vinna og hvað hentar því best. Sjálfsagt má hugsa sér alls konar fyrirkomulag á þessu.

Ég bendi líka á að íslenska utanríkisráðuneytið er ekkert sambærilegt við sum þau ráðuneyti sem hafa þennan málaflokk hjá sér í nágrannalöndunum, eru með tvo, þrjá ráðherra, þar á meðal sjálfstæðan ráðherra fyrir þróunarsamvinnu og (Forseti hringir.) miklu stærri og deildaskiptari en utanríkisráðuneytið okkar. Ég er ekki viss um að það sé neitt yfirfærslugildi (Forseti hringir.) að skoða þetta í öðrum löndum eins og hér hefur verið notað (Forseti hringir.) sem rök.