145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fór einmitt aðeins yfir það í ræðu minni og hefði getað gert ítarlegar ef tíminn hefði leyft. Ég kannast ekki við að það hafi verið deilur eða óánægja hvorki með starfsemi og áherslu Þróunarsamvinnustofnunar né í reynd þau viðmið sem við höfum sett okkur í verkefnavali og öðru slíku. Það eina sem er óásættanlegt er hvað lítið fjármagn er sett í þetta. En þær áherslur sem hafa verið mótaðar og verið styrktar undanfarin ár — ég segi fyrir mitt leyti, ég er alveg prýðilega sáttur við þær, áherslur á málefni kvenna og barna, á umhverfismál, heilbrigðis- og menntamál og annað slíkt sem hefur verið að þyngjast í áherslunum hjá okkur. Ég tel það bara alveg hárrétt. Hvers vegna þá að breyta? Auðvitað hefur Þróunarsamvinnustofnun átt sinn þátt í því, verið okkar fagstofnun og verið mótandi og leiðandi aðili á margan hátt í því að þróa þessi mál hjá okkur, gert það vel að mínu mati.

Já, kannski er það að einhverju leyti það að menn horfi til fjármagnsins, þá líti þetta betur út svona og sjáist ekki eins vel hvað þetta er lítið í einhverri stórri púllíu inni í ráðuneytinu, ég veit það ekki. Hitt væri náttúrlega enn svakalegra ef menn ímynduðu sér að þeir gætu fiktað eitthvað pínulítið við bókhaldið með því að færa þessa fjármuni inn í ráðuneytið og stýra þeim þar, t.d. hvað varðar mannahaldið, vegna þess að nú er nákvæmt eftirlit með því hvað má telja fram sem framlag til þróunarsamvinnu. Við megum auðvitað ekkert svindla á því og fara að nota fólk sem við segjum að sé að sinna þróunarsamvinnu inni í ráðuneyti til að gera eitthvað annað. Nei, við yrðum þá að draga það frá því sem teldist gilt framlag okkar til þróunarsamvinnu. Um það gilda (Forseti hringir.) reglur. Ég trúi því ekki að menn hafi velt fyrir sér einhverjum slíkum æfingum. En það væri þá til að bíta höfuðið af skömminni.