145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur mildast með árunum eins og fleiri og hvarvetna sem hann sér gjár milli manna vill hann byggja brýr. Hv. þingmaður segir: Ef staðan er þannig að það sé einhvers konar samskiptaleysi millum stofnunarinnar og hins háa ráðuneytis þá er sjálfsagt að setjast niður og reyna að ráða bót á því.

En í þessu felst kjarni málsins: Það er ekkert samskiptaleysi. Það eru engir hnökrar á samskiptum stofnunar og ráðuneytis. Þetta var það sem við fórum rækilega yfir í nefndinni. Þetta var það sem þróunarsamvinnunefnd OECD fór rækilega yfir. Allar boðleiðir, samskiptaleiðir, eru snurðulausar. Það er niðurstaðan af skoðun á tengslum millum stofnunarinnar og ráðuneytisins. Því verður ekkert breytt. Þannig er það bara.

Við höfum, í allri þessari umræðu, verið að reyna að finna einhvers konar rök fyrir þessari breytingu. Hv. þingmaður man kannski eftir því í fyrra þegar nokkuð fast var gengið á hæstv. ráðherra og honum sagt að meðan hann kæmi ekki með dæmi máli sínu til stuðnings þá væri þetta ekkert annað en rógur um stofnunina. Þá sagði hæstv. ráðherra að það væri eitt dæmi sem hann hefði, en það væri þess eðlis að hann vildi ekki ræða það opinberlega. Menn voru skildir eftir með þá tilfinningu að eitthvað stórkostlegt hefði gerst sem ekki þyldi umræður í þingsal. Yfir það var farið í nefndinni. Loksins þegar ráðuneytismenn höfðu skoðað það þá kom í ljós að einu sinni hafði verið ráðslag á milli stofnunar um hvernig ætti að tjá afstöðu Íslands gagnvart viðhorfi úganskra stjórnvalda til samkynhneigðar. Það kom í ljós að það voru aldrei neinir úfar sem risu út af því. Þróunarsamvinnustofnun taldi að það ætti að gera það með einum þætti út frá sinni þekkingu á staðháttum, ráðuneytið með öðru móti. Þegar upp var staðið (Forseti hringir.) þá var sjónarmiðinu bara komið á framfæri, ekkert vandamál.

Þannig að ég spyr hv. þingmann: Í krafti reynslu sinnar, hvað telur hann (Forseti hringir.) að vaki fyrir ríkisstjórninni með þessari breytingu fyrst okkur tekst ekki, og ekki einu sinni ráðherranum sjálfum, að finna eitthvað sem hægt er að leggja hér fram?