145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Ég er í miklum vanda að reyna að láta mér detta eitthvað í hug í þeim efnum, af því að ég vil heldur ekki vera að ætla mönnum hluti eða gera mönnum upp skoðanir. En auðvitað, ef hv. þingmaður vill leggja eyrun við, getum við svo sem viðurkennt það, sem höfum nokkrum sinnum komið inn í ráðuneyti og kynnst þeim stofnunum að innan, að þar er oft dálítil tilhneiging til að safna þráðum í hendur ráðuneytis og efla það sem slíkt og upp að vissu marki er það algerlega skiljanlegt. Ráðuneytin hafa mörg orðið að taka á sig sparnað og niðurskurð og kannski finnst mönnum að þeir séu að einhverju leyti að ná vopnum sínum með því að færa þá inn í ráðuneyti fjárlagaliði og verkefni, og þess vegna heilar stofnanir með manni og mús, til að bregðast við slíku og þyngi í sér pundið með því. Ég gæti alveg giskað á að þau sjónarmið hefðu fundist innan veggja innanríkisráðuneytisins, meðal embættismanna o.s.frv., að þetta mundi efla ráðuneytið á einhvern hátt og allt það.

En hvers vegna hæstv. ráðherra gengur þeim sjónarmiðum á hönd, það er erfiðara að skilja. Ég finn bara eiginlega ekkert sem heldur þá lengur vatni. Hv. þingmaður, sem var og er í utanríkismálanefnd, hefur upplýst hvernig farið var yfir þetta í nefndinni; öll kurl komin þar til grafar og engin vandamál. En í sjálfu sér er það áhugavert, þegar dæmið er nefnt um það hvernig takast eigi á við skammarlega afstöðu stjórnvalda í Úganda í garð samkynhneigðra, að Þróunarsamvinnustofnun hafi haft hugmynd um að gera það með tilteknum hætti en utanríkisráðuneytið aðrar. Þá getum við farið aðeins lengra og velt fyrir okkur: Er það ekki einmitt dæmi sem er gott að framkvæmdastofnunin, sem er með tvíhliða þróunarsamvinnuverkefnin, sé fagstofnun, sé ópólitísk, sé sem óháðust, þannig að mótun utanríkisstefnunnar sé bara annað mál?