145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við sem höfum farið með framkvæmdarvaldið vitum að góðir embættismenn eru ígildi þyngdar sinnar í gulli. Það verður enginn almennilegur ráðherra nema hann hafi eyru sem hann notar til þess að hlusta mjög rækilega eftir ráðleggingum embættismannanna. Okkur öllum sem með framkvæmdarvald förum er hollast að leita ráða þar. Síðan er annað mál með hvaða hætti menn fara eftir þeim. Menn verða að vega og meta. Embættismenn, eins og aðrir, eru breyskir og þeir hafa líka stundum aðra hagsmuni en endilega pólitískur ráðherra þegar um er að ræða uppbyggingu síns ráðuneytis. Auðvitað er það svo að það er ekki nokkur einasti vafi í mínum huga, og ég hef aldrei dregið dul á það, að fyrst og fremst er þarna um að ræða samsöfnun valds í ráðuneytinu og verið að taka þræði þangað inn. Það er alveg skiljanlegt. Þarna er um gríðarmikla og vaxandi fjármuni að ræða og eðlilega þá skýtur þetta a.m.k. einnig gildri stoð undir ráðuneytið.

Í annan stað er líka ljóst að þetta skapar alls konar möguleika fyrir þá sem vinna í ráðuneytunum fyrir því að koma og sinna störfum fyrir Ísland á erlendri grundu. Það er töluverður fjöldi manna í þessum starfsstöðvum. Þetta skapar möguleika til þess að menn heyi sér reynslu á erlendri grund.

Hins vegar vek ég eftirtekt hv. þingmanns á því að ef þessir starfsmenn verða flutningsskyldir þá þýðir það að þeir standa stutt við og þekkingin sem er til staðar, og hefur byggst upp innan þessarar stofnunar, mun smyrjast þunnt út. Það er þess vegna sem Danir og Norðmenn, þegar þeir vildu breyta, tóku stofnunina og fluttu hana í heilu lagi, létu hana haldast óbreytta innan landamæra ráðuneytisins, einmitt til þess að smyrja þekkinguna (Forseti hringir.) ekki of þunnt.

Ég spyr hv. þingmann: Telur hann ekki að flutningsskyldan muni leiða til þess að fagleg (Forseti hringir.) þekking muni líða fyrir það? Hugsanlega mun þurfa fjármuni, eins og mér fannst hæstv. ráðherra segja hér í framsögu sinni, til þess að byggja upp þessa þekkingu með námskeiðum og endurmenntun.