145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú þekkir hv. þingmaður sjálfur afar vel til þarna og nefnir þetta atriði sem er fullgilt. Ég leyfi mér að hafa verulegar efasemdir um að það sé gæfulegt — ef það er eitt af því sem menn hugsa sér að ná fram, og ef það á að lesa út úr þessum skrýtna texta um samþættinguna á bls. 6 í greinargerð með frumvarpinu — að eiginlega allt ráðuneytið verði undir og menn geti farið að stökkva í þessi verkefni á víxl, flutningsskyldan gildi þannig að menn verði þá færðir til; ég tala nú ekki um ef hugsunin er sú að ef einhver miklu, miklu breiðari hópur almennra starfsmanna í ráðuneytinu geti farið að ganga í þessi verk.

Við höfum einmitt verið að tala um það og fara um það nokkrum hlýlegum orðum að í Þróunarsamvinnustofnun hafi byggst upp fagþekking, stöðugleiki, ekki mikil starfsmannavelta og margir gamalreyndir sem hafa verið verkefnisstjórar eða útsendir starfsmenn árum og áratugum saman jafnvel, hafa orðið verðmæta reynslu, hafa glímt við verkefni annars staðar, voru kannski í Namibíu eða einhvers staðar áður en þeir fóru til næsta lands.

Ég held að þetta sé eitthvað sem þurfi að fara mjög vel ofan í saumana á og treysti hv. nefnd til að gera það. Er þetta kannski hugsunin að einhverju leyti og gæti það skýrt áhuga ráðuneytismanna, að þeim finnst svolítið spennandi að geta haft þennan valkost og möguleika til að skjótast í? Kannski það sé. Hvaða viðhorf hefur hæstv. ráðherra þá til þess? Finnst honum það skynsamlegt að draga úr sérhæfingunni og stöðugleikanum og uppbyggingu fagþekkingar í traustum kjarna starfsmanna sem hefur reynslu af því að sinna þessum verkefnum? Er því ekki bara ágætlega fyrir komið í dag í stofnuninni eins og hún er?