145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skal viðurkenna að ég er ekkert sérstaklega mikið íhald. Ég er alveg til í alls konar breytingar og tel reyndar að það sé margt sem við þurfum að gera breytingar á í samfélaginu. Þegar breytingar eru ákveðnar þurfa menn líka að vita og vera vissir um að það sé til þess að koma málum einhvern veginn áfram, gera eitthvað sem er betra en það sem fyrir er. Mér er algjörlega fyrirmunað að sjá að það sé svo í þessu tilfelli. Ég hef í andsvörum farið yfir nokkra þá þætti sem valda mér helst áhyggjum og ætla að fara yfir þá aðeins á eftir. Það er tiltölulega stutt síðan, það var með lögum 2008 sem við bjuggum loksins til heildarramma utan um þróunarsamvinnu hér á landi. Það var heildarlöggjöf um málaflokkinn og hún fól í sér í raun að stofnunin fékk meiri sveigjanlega en áður og það voru gerðar töluverðar breytingar á málaflokknum sem hafa reynst mjög vel. Það hefur verið látið í veðri vaka að hér sé bara um einhverjar smávægilegar formbreytingar að ræða. Svo er alls ekki, hér er um að ræða eðlisbreytingu á þróunarstarfsemi okkar og ég held og vona innilega að utanríkismálanefnd fari nú vandlega yfir þetta og taki ákvörðun, ekki út frá því að ráðherrann eigi inni að fá eitt mál í gegn eins og svo stundum vill verða, maður hefur það á tilfinningunni, heldur taki ákvörðun á faglegum forsendum.

Ég vona að nefndin eigi líka eftir að svara stórum spurningum sem hafa komið fram í þessari umræðu. Þó að nefndarmenn hafi ekki verið iðnir við kolann og ekki setið fast við umræðuna vona ég að spurningarnar verði bornar uppi af fulltrúum okkar í utanríkismálanefnd og að þeir tryggi að við fáum svör við þeim. Það sem mér finnst standa uppi eftir umræðuna er að mér finnst búið að skræla dálítið utan af málinu með þeim hætti að við erum komin að kjarnanum í svarinu við spurningunni af hverju og til hvers niður í það að það eru engin fagleg rök, það eru engin rök um að með þessu séum við að bæta stjórnsýsluna. Það eina sem stendur eftir er að menn eru að sækja sér fjármagn inn í ráðuneyti. Það er það eina sem stendur hér eftir. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að það er ekki góð ástæða til að breyta svo mikilvægum og viðkvæmum málaflokki jafn afgerandi og raun ber vitni. Þegar menn taka ákvörðun um að taka fagstofnun inn í ráðuneyti þurfa þeir að rökstyðja það með öðru en að þeir séu að sækja sér fjármuni. Það stendur ekkert annað eftir í þessu máli en það og það er vond ástæða. Frekar ættum við að setjast saman eins og hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon sagði og spyrja spurningarinnar í grundvallaratriðum: Hvert er vandamálið sem við erum að fara að leysa með þessu? og reyna frekar að nálgast það mál öðruvísi en svona vegna þess að ég hef hvergi og aldrei nokkurn tímann orðið vör við að það leysi mál að taka fagstofnun þar sem mikil sérþekking hefur byggst upp og grauta henni saman við aðra starfsemi sem er að mjög miklu leyti óskyld. Þróunarsamvinna er ekki eins og hver annar málaflokkur. Þróunarsamvinna er sérhæft fag þar sem krafist er mikillar sérþekkingar, hún má alls ekki vera háð einhverjum duttlungum eða tilfinningum hverju sinni. Hún þarf að vera útpæld og úthugsuð vegna þess að þar eiga menn við samfélagsgerðir ólíkar þeim sem við þekkjum hér. Þegar menn eru að fara með þróunaraðstoð út um heim geta þeir oft og tíðum komið inn í mjög viðkvæm samfélög og haft mjög afgerandi áhrif á samfélagsgerðina á viðkomandi stöðum. Þá geta menn ekki byggt þær ákvarðanir á tilfinningum eða neinu slíku, það verður að vera gert af fullkominni ábyrgð og vitneskju um það hvaða afleiðingar gjörðir mannanna geta haft.

Við getum ekki gert þetta bara af því að ráðherranum datt þetta í hug og er að verja þetta einhvern veginn af því að honum finnst hann þurfa að koma þessu máli í gegn af einhverjum ástæðum. Það er ekki eins og það sé einhver pólitískur þungi í þinginu á bak við ráðherrann í málinu. Hann stendur einn með þetta, við höfum ekkert heyrt frá sjálfstæðismönnum, samstarfsflokknum, nema einum þingmanni sem situr í utanríkismálanefnd og sagði við okkur bara heiðarlega: Ég skil ekki af hverju menn eru að reyna að koma þessu hér í gegn, ég skil ekki rökin fyrir þessu máli. Það er eini maðurinn sem hefur talað í samstarfsflokknum. Þetta voru skilaboðin frá honum en samt móast ráðherrann við að koma þessu hér í gegn og á án efa eftir að semja þetta inn á borðið af því að menn telja hann eiga inni eitt mál. Þeir telja þetta þá kannski ekki það mikilvægt að menn geti svo sem fórnað einni þróunarsamvinnustofnun. Fyrir okkur sem erum að tala hér er þetta hins vegar mikilvægt, þróunarsamvinna er gríðarlega mikilvæg. Það er þátttaka í alþjóðasamfélaginu á ábyrgum grundvelli sem gerir okkur að því sem við erum, stoltri og sterkri þjóð. Hæstv. ráðherra hefur ýjað að því að eitt og annað hafi ekki verið í lagi og þegar menn skræla svo utan af því kemur í ljós að það var ekki neitt, kannski einhver ein uppákoma eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi áðan, og af því að menn hafa ekki fagleg rök á bak við það sem þeir eru að gera grípa menn til svona varna: Það var svolítið sem þeir gerðu en ég get ekki sagt ykkur það hér.

Hvers lags eiginlega er þetta? Hvers lags fagmennska er það? Þetta eru ófagleg viðbrögð hjá ráðherranum, það er bara þannig. Menn þurfa að geta sagt nákvæmlega hvað menn vilja sjá gerast með þessum breytingum og því er ekki svarað hérna.

Virðulegi forseti. Það er tvennt í þessu sem angrar mig. í fyrsta lagi það að ég sé ekki faglegu rökin. Þá ætla ég aftur að koma inn á, eins og ég gerði hér fyrr í dag, skýrslu DAC, þróunarsamvinnunefndar OECD, sem skrifuð var um Ísland árið 2012. Það var gert í tilefni af því að við vorum að ganga formlega þarna inn. Í gegnum þessa skýrslu er Íslandi meira og minna hrósað fyrir að þrátt fyrir að vera með lítið umfang væri það vel gert og fókusinn skýr. Það sem mér þykir líka einna áhugaverðast í þeirri umsögn og skýrslu er hvernig fjallað er um sveigjanleika stofnunarinnar til að bregðast við þörfum heimamanna. Það er rökstutt með því að hugmyndafræðin innan húss sé valddreifing sem gefi útstöðvum stofnunarinnar aukið færi á að bregðast við þörfum heimamanna og þær hafi sveigjanleika til að hlýða á það sem heimamenn hafi fram að færa og vinna með þeim að breytingum og því að bæta samfélagið. Þetta er nútímaleg hugsun, það eru nútímaleg vinnubrögð að vinna svona. En, nei, frá þessu þurfum við að hverfa af því að menn vantar aur inn í ráðuneytið.

Virðulegi forseti. Hitt atriðið sem hefur líka angrað mig er að ég átta mig heldur ekki á því á hvaða vegferð ríkisstjórnin er með stofnanir. Það er ákveðin aðferð að reka ráðuneyti, við höfum verið að þróast í þá átt og Ríkisendurskoðun hefur kallað eftir því að það sé frekar unnið með þeim hætti, þ.e. að ráðuneytin séu eftirlitsaðili, umsjónaraðili og eftirfylgniaðili en síðan erum við með stofnanir sem sinna framkvæmdinni. Það fyrirkomulag hefur gefist vel enda dettur engum í hug í öðrum ráðuneytum að taka til sín stofnanir. Ég hef ekki heyrt af því, menn eru hugsanlega að efla þær, sameina stofnanir og annað slíkt eða jafnvel færa verkefni út úr ráðuneytum inn í stofnanir og sameina öðrum eins og til dæmis nýlega hjá menntamálaráðuneytinu í svokallaða Menntamálastofnun þar sem menn færðu beinlínis verkefni út úr ráðuneytinu til að geta veitt framkvæmdinni aukið aðhald og fylgt þannig eftir vilja þingsins í ákveðnum málum. Svo geta menn haft alls konar skoðanir á því hvað stofnanirnar gera og hvernig þær vinna en það er ákveðin skynsemi í þessari uppsetningu vegna þess að þá er ekki verið að grauta saman ákvarðanatöku, framkvæmd, eftirliti og eftirfylgni í einn pott. Við viljum ekki vinna þannig en það er það sem verið er að gera hér. Það er það sem menn ætla að gera í þessu tiltekna tilviki og það er það sem ég átta mig ekki á. Mér finnst við eiginlega þurfa að heyra það frá verkstjóra þessara ríkisstjórnar hver línan sé varðandi það hvernig stjórnsýslu menn ætla að stunda. Á hún að vera miðstýrð eða á hún að vera valddreifð? Á hún að vera skýr eða ætla menn að vera með ráðuneytin sem hálfgerðan hrærigraut ólíkra verkefna ásamt því að þeir séu að fylgjast með sjálfum sér og sinni framkvæmd?

Það er þetta sem ég átta mig ekki alveg á í þessum leiðangri öllum saman.

Virðulegi forseti. Við gengum í DAC á síðasta kjörtímabili. Nú höfum við verið þar innan borðs í nokkur ár og þar á að gera á þróunarsamvinnu á Íslandi svokallað jafningjamat. Það sem ég skil heldur ekki er asinn í þessu máli af hálfu ráðherra. Hvers vegna á að keyra þetta svona skarpt í gegn núna þegar það er fyrirséð að við erum að fá slíka úttekt á næsta ári? Ég tek þess vegna undir með þeim sem hér hafa talað og kallað eftir því að ráðherra bíði að minnsta kosti með þetta þangað til sú úttekt hefur farið fram. Það getur meira að segja bara vel verið að við fáum jafnvel góðar ábendingar út úr því mati. En, nei, þá ætlum við að keyra grundvallarbreytingar hér í gegn rétt áður en það kemur. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Ég kann þetta, ég veit þetta, ég er algjörlega með þetta á hreinu. Svona gerum við í Framsóknarflokknum hlutina, bara eins og við viljum, eins og okkur dettur í hug, eftir eigin höfði. Við þurfum ekkert að hlusta á annað fólk, við kunnum þetta best og vitum þetta best. Við erum best í heimi, — það er dálítið viðkvæðið. Menn telja sig greinilega vera besta í heimi og hvorki þurfa að hlusta á þá þingmenn samstarfsflokksins sem talað hafa í þessu máli né einhverjar fagstofnanir úti í heimi.

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mál allt saman með slíkum ólíkindum og eftir því sem tíminn líður og við heyrum og sjáum meira verður það verra í mínum huga. Hvers vegna verður það verra? Það er vegna þess að þeim mun lengur sem þetta mál hefur verið til umræðu, þeim mun skýrara hefur það orðið að rökin að baki þessu eru ekki fagleg, hvorki hvað varðar sjálfa starfsemi stofnunarinnar né stjórnsýslulega. Í öðrum ráðuneytum eru menn frekar að færa verkefni út til stofnana þannig að menn gera þetta hipsumhaps eftir því hvað ráðherranum hentar hverju sinni. Þá standa bara eftir þessi einu rök, að menn eru að gera þetta til að ná sér í aura. Það er algjörlega handónýt leið til að taka ákvarðanir að byggja það á þeim forsendum. Það þýðir að mönnum er nákvæmlega sama um verkefnið. Það er það sem stendur eftir í mínum huga eftir þessa umræðu, eftir viðbrögð ráðherrans hér og málflutning hans í þessu máli. Það er það eina sem stendur eftir, að sækja aurinn inn í ráðuneyti.

Virðulegi forseti. Ég sé formann utanríkismálanefndar og ég vona innilega að alvöruskoðun fari fram á þessu. Okkur stendur ekki á sama um þennan mikilvæga málaflokk og það er vont að rjúfa friðinn sem skapaðist um heildarlöggjöfina svo seint sem árið 2008. Það er stuttur tími fyrir svona málaflokk til að gera síðan einhverjar gagngerar breytingar, eðlisbreytingar, eins og verið er að gera hér með þessari ákvarðanatöku. Ég biðla til formanns nefndarinnar, vegna þess að ráðherrann hlustar ekki, um að velta upp spurningunni og fá skýr svör: Hvað er það sem þarf að laga? Síðan þarf að svara því heiðarlega hvort þetta sé í alvörunni leiðin til þess.