145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttir fyrir ræðu hennar. Mig langar að byrja andsvar mitt á að taka undir nokkur atriði sem fram komu í ræðunni, fyrst að það sé enginn pólitískur þungi með þessu frumvarpi og eins varðandi skort á umræðu hér í þingsal, þ.e. á því að hv. þingmenn úr meirihlutaflokkunum taki til máls. Jú, einn hefur að vísu gert það, en fjarvera stjórnarliða í þessari umræðu er hrópandi, þeir hlusta ekki einu sinni á hana, að því er virðist.

Ég tek undir með hv. þingmanni, ég hef áhyggjur af því að einhver hrossakaup fari af stað um málið og menn segi: Jú, leyfum þessu máli að fara í gegn þó svo að við höfum ekki kynnt okkur það, þetta er greinilega eitthvað sem stjórnarandstaðan er alveg brjáluð á móti.

Ég held því að það sé full ástæða til þess að hafa áhyggjur af því þó svo að ég voni svo sannarlega að svo verði ekki.

Ég er sammála því sem hv. þingmaður segir að hér sé um eðlisbreytingu á málinu að ræða en ekki formbreytingu eins og látið er í veðri vaka. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem aðeins hefur verið nefnt í umræðunni fyrr í dag. Það varðar flutningsskyldu ráðuneytisins versus fagþekkingu, og varðar það sem hv. þingmaður segir, að þróunarsamvinna sé ekki eins og hver annar málaflokkur. Hverjum yrði það til hagsbóta ef flutningsgeta ráðuneytisins yrði tekin upp í þessu máli? Er það fátækum almenningi í þróunarlöndum til hagsbóta eða er það ráðuneytissamstarfi til hagsbóta, (Forseti hringir.) þeim sem eru jafnvel að byggja upp „karríer“?