145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningar hennar. Það er þeim samfélögum fyrir bestu sem ákveðið er að fara inn í með þróunaraðstoð að menn hafi stúderað vel samfélagsgerðina og allar hliðar samfélagsins þar, þ.e. alvöruverkefni sem þarf að sinna. Fara þarf í djúpar rannsóknir vegna þess að ef það er ekki gert vel, þ.e. farið í þessi verkefni eftir slíkar rannsóknir, geta menn beinlínis valdið þar skaða. Það eru því miður mörg dæmi í sögu þróunaraðstoðar um slíkt þar sem ákaflega velviljað fólk ákvað að fara og hjálpa til í þessum ríkjum og skildi eftir sig meiri erfiðleika en voru til staðar þegar það kom. Svoleiðis gerist vegna þess að menn hafa ekki stúderað samfélagsgerðina eða dýnamíkina í samfélaginu.

Síðan verða menn að vera vissir um að ábati verði af verkefninu fyrir samfélagið. Ég verð að segja alveg eins og er að mér líður betur með að slíkar ákvarðanir, rannsóknir og fagþekking séu innan skýrt skilgreindrar stofnunar með þetta einstaka hlutverk á hendi en ekki grautað saman við önnur verkefni. Þá er ég ekki að gera lítið úr verkefnunum eða fólkinu sem starfar innan ráðuneytisins, það hefur ekkert með það að gera. Það er bara vegna þess að þessi málaflokkur er gríðarlega viðkvæmur vegna þess að við vinnum þar með líf og samfélög fólks. Yfirleitt hefur þróunaraðstoð gríðarlega góð áhrif en það getur líka verið á hinn veginn ef menn ganga ekki vel fram. Þess vegna vona ég að (Forseti hringir.) að menn hugsi þetta mál mjög vandlega og reyni að halda (Forseti hringir.) þeirri fagþekkingu sem orðið hefur til hér innan lands mjög þétt innan stofnunarinnar eða þeirrar einingar sem nær að viðhalda því góða starfi sem unnið hefur verið.