145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir, það er mjög mikilvægt að stúdera samfélagsgerðina vegna þess að með þróunarsamvinnu er hægt að hafa svo gríðarlega mikil áhrif á samfélögin og þar með auðvitað lífskjör, heilsu og menntun og fleira sem skiptir almenning í þessum löndum grundvallarmáli. Rannsóknir sýna að þegar vel er staðið að þróunarsamvinnu þá bætir hún einmitt þessa þætti, lífskjör, menntun og heilsu. En rannsóknir sýna líka að gæðin og afköstin minnka þegar framlagsríkin láta sína hagsmuni, t.d. viðskipta- eða stjórnmálahagsmuni, ráða för.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni áðan að hún hefði áhyggjur af því að hér væri verið að taka peninga inn í ráðuneytið til þess að geta mögulega stýrt því betur í hvað þeir yrðu notaðir. Er hv. þingmaður sammála mér í því að við þurfum ekki bara að hafa áhyggjur af krónunum sem veittar eru heldur einnig pólitíkinni, sem hæstv. ráðherra getur haft svo miklu meiri áhrif á, verði þetta frumvarp samþykkt, miðað við það sem hægt er í núverandi kerfi? Er það ekki þáttur sem við þingmenn þurfum að taka til skoðunar og vera á varðbergi gagnvart?