145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er hættara við að við slíkar kringumstæður geti pólitískir duttlungar ráðið för. Ég er ekki að segja að svo verði, það gerir það ekki sjálfkrafa en það getur gert það. Það fer bara eftir því hvort menn nota það eða ekki. Ég vil ekki að þessum málaflokki sé þannig fyrir komið að það geti gerst. Ég held að ekkert okkar sem höfum talað í þessu máli viljum það. Þess vegna skiptir svo miklu máli að það sé hafið yfir allan vafa að það sé hægt og að þessi viðkvæmi málaflokkur sé í höndunum á fagfólki, það sé ekki þunnur milliveggur yfir til ráðherrans og að ákvarðanir verði teknar þar.

Ef þetta verður samþykkt, sem ég vona að sjálfsögðu ekki, þurfum við, þingið, að taka ákvörðun um með hvaða hætti við ætlum að veita utanríkisráðuneytinu aukið aðhald, þ.e. þá þarf eftirlitið að koma héðan. Það er þá okkar sem hér erum að fá fram með reglubundnum hætti nákvæmar útlistanir á því með hvaða hætti menn vinna þessi verkefni, hvernig þau eru unnin og hvernig ákvarðanatakan fer fram o.s.frv. Það verður þunglamalegt fyrir málaflokkinn, það þýðir að einstaka verkefni geta orðið einhver bitbein í pólitískri umræðu. Það er ekki sá leiðangur, held ég, sem við viljum fara í, en það mun þróast þannig. Þá munum við kannski ekki fá jafn góðar umsagnir frá DAC og við fengum 2012 þar sem fram kom að stofnunin sinnti verkefnum sínum gríðarlega vel og væri fókuseruð og sveigjanleg.