145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:22]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Dæmið sem hv. þingmaður nefnir er auðvitað fyrir neðan allar hellur og hefur verið rætt hér. Þetta er auðvitað ekki boðlegt, en þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem koma dylgjur í greinargerð frá utanríkisráðuneytinu, þessum utanríkisráðherra. Skemmst er að minnast greinargerðar með þingsályktunartillögu um að draga til baka aðildarumsóknina að Evrópusambandinu þar sem gefið var í skyn að hér hefðu verið þingmenn sem ekki hefðu greitt atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni. Það er einsdæmi að menn skrifi slíkt í greinargerðir sínar. Viðkomandi ráðherra hefur orðið uppvís að slíku áður þannig að það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart.

Svo veit ég að hann var spurður út í það hér í ræðustóli, þ.e. við hvað væri átt, hvaða ósamrýmanleiki væri í stefnumörkun eða hvaða margradda þróunarsamvinnu við værum að reka. Þá sagði hann víst hér, svo ég bara hafi það eftir, virðulegi forseti, að það væri mál sem hann vildi ekki nefna í ræðustól en skyldi ræða það við utanríkismálanefnd. Svo var það rætt við utanríkismálanefnd, þá var það ekki neitt neitt. Menn grípa bara eitthvað til að koma málum sínum í gegn. Bara eitthvað. Að ráðamenn þjóðarinnar skuli leyfa sér að standa í ræðustól og segja, „það var svolítið, ég get ekki sagt ykkur það“ og rökstyðja mál og reyna að koma þeim í gegnum þingið með þeim hætti er ekki boðlegt.

Svo verð ég að segja eins og er, virðulegi forseti, að það er fleira í þessari greinargerð sem mér finnst skrýtið og ég kem ekki heim og saman við umsögn DAC um íslenska þróunarsamvinnu sem kom eins og ég hef áður greint frá 2012. Það sem sagt er í þeirri skýrslu um íslenska þróunarsamvinnu og síðan það sem sagt er í þessari greinargerð um íslenska þróunarsamvinnu kemur ekki heim og saman. Þannig að menn eru að búa eitthvað til til að koma málinu áfram og lenda því eins og þeir vilja.