145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:24]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mig langar líka til þess að staldra við það sem kom fram í ræðu þingmannsins þegar hún talaði um þennan hluta af íslenska stjórnkerfinu, þ.e. Þróunarsamvinnustofnun Íslands, sem hluta af sjálfsmynd Íslendinga. Ég staldraði við þetta vegna þess að ég er sammála þessu og mér finnst þetta mikilvægur skilningur á fyrirbærinu sem Þróunarsamvinnustofnun er. Mér finnst þetta vekja okkur til umhugsunar um samhengi hlutanna einmitt hér og nú og þá staðreynd að þegar hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, lætur hefja endurskoðun á heildarlöggjöf um útlendinga og málefni útlendinga á Íslandi þá leggur hún til að það verði gert undir þverpólitísku flaggi vegna þess hversu mikilvægur, dýrmætur og viðkvæmur þessi málaflokkur er.

Þegar hæstv. ráðherra Ólöf Nordal tekur við ráðuneytinu heldur hún áfram þeirri vinnu og skilar því umboði mjög skýrt til nefndarinnar að hún skuli halda áfram sinni vinnu. Þessi andi svífur yfir vötnunum í þeirri tillögu sem hæstv. ríkisstjórn sagði frá núna um helgina varðandi sínar aðgerðir í flóttamannamálum og hefur yfirbragð heildarsýnar þar sem við getum öll gengið fram og verið stolt og verið sátt við okkar framlag gagnvart alþjóðasamfélaginu. Þetta er óendanlega mikilvægt.

Þess vegna vil ég líka segja að við erum ekki að tala um hvaða stofnun sem er. Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason talaði hér um að það væri óþarfi að skakast til með stofnanir bara sisvona út í loftið. Ég gæti ekki verið meira sammála. En í þessu tiltekna máli er sérstaklega mikilvægt að ná einhverri heildarsýn.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann af sinni þingreynslu og innsæi: Hvaða leið höfum við til þess að gera þessum málaflokki til góða undir einhverju sameinuðu, þverpólitísku flaggi þar sem hæstv. ráðherra getur haft fullan sóma af?