145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:26]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru góð dæmi sem hv. þingmaður nefndi, vegna þess að þau eru viðkvæm eins og sá málaflokkur sem hér er undir. Við náðum árið 2008 að koma hér með heildarlöggjöf sem var samþykkt af þinginu í mjög góðri sátt, þverpólitískri sátt. Það sem verið er að gera núna er að rjúfa þá sátt og keyra í gegn einhverja breytingu þvert á vilja allra — það hefur enginn komið hingað og flutt eldheita ræðu með faglegum rökum með þessu, við skulum bara horfast í augu við það — og ég tel að þá séu menn á rangri braut. Það sem kallað er eftir er aukið samtal, aukin samvinna um mál, aukin samstaða og þverpólitísk samstaða. Það stendur ekki á okkur að setjast niður með ráðherranum og reyna að finna leið út úr þessu máli og fá fram svarið við spurningunni um hvað þurfi að laga, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon orðaði það svo vel í ræðu sinni áðan, og leggja svo sameiginlega í leiðangurinn að reyna að finna út hvernig við getum lagfært þau atriði sem mega fara betur.

Ég held að það sem við gætum gert núna varðandi þetta mál væri að bíða eftir að DAC-skýrslunni sem kemur á næsta ári þar sem koma örugglega fram góðar ábendingar til okkar um það hvernig við getum betrumbætt starfsemi okkar í þróunarmálum, vegna þess að alltaf er hægt að bæta allt. Það á örugglega við um þennan málaflokk. Það er ekki verið að segja að allt sé fullkomið eins og það er. Það má örugglega bæta allt. Síðan að setja niður þverpólitískan hóp sem fer yfir það í sameiningu með því fagfólki sem þekkir best til hér innan lands og jafnvel erlendis frá og leggja síðan fram sameiginlega tillögu í kjölfarið á því. Ég held að það væri bragur að því og ég held að það (Forseti hringir.) gæti sett málið í ásættanlegan farveg og við mættum raunar vinna svona í fleiri málum.