145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að byrja á því að fara yfir þær forsendur sem ég þekki til í þessu máli eða öllu heldur það sem ég mundi kalla forsenduleysi. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að þetta væri einn stærsti einstaki málaflokkurinn sem utanríkisráðuneytið sinnir og ég veit ekki betur en það sé satt. Hins vegar hefur mér gengið mjög illa að átta mig á því, og hefur bara mistekist það algjörlega verð ég að viðurkenna, hvað það er nákvæmlega sem hæstv. ráðherra hyggst ná fram með þessu, vegna þess að þær skýringar sem eru gefnar um þetta mál virðast ekki standast. Ég þekki engar vísbendingar þess efnis að Þróunarsamvinnustofnun standi sig illa eða að hún sé óskilvirk nema að því leyti sem má auðveldlega laga eftir öðrum leiðum eða einfaldlega skilgreina verkefnið betur eða skýrar, sem maður hefði haldið að væri frekar einfalt verk, einfaldara en þetta, einfaldara en að brölta í gegnum Alþingi með heilt þingmál. Hitt er síðan að það á að hafa verið einhvers konar samskiptavandi milli stofnunarinnar og utanríkisráðuneytisins, eitthvað sem við vitum, tel ég, að er einfaldlega ekki rétt. Þetta er alla vega ekki þannig vandi að ástæða sé til þess að leggja stofnunina niður og koma starfsemi hennar fyrir í utanríkisráðuneytinu með tilheyrandi brölti og óþægindum fyrir starfsfólk.

Það sem mér þykir í raun og veru áhugavert við þetta mál er það sem fylgir samantekt um málið. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs …“

Þetta segir mér að það er vissulega ekki af kostnaðarlegum ástæðum sem menn leggja frumvarpið fram. Menn sjá ekki fyrir sér að það muni skila neinum sparnaði fyrir ríkissjóð, svo mikið er víst, enda hugsa ég að kostnaðurinn sem felst í því að fara í gegnum þingið með málið, að þinghaldinu ólöstuðu, sé meiri en það sem mundi sparast með þessu. Eftir stendur því einungis hin meinta óskilvirkni, þ.e. að verkefnin séu ekki skilgreind þannig að það sé stofnuninni og utanríkisráðuneytinu skýrt hvað tilheyri hverjum, og maður hefði haldið að auðvelt væri að laga það, og hins vegar hinn meinti samskiptavandi sem við vitum núna að er ekki neitt neitt.

Það vekur athygli mína að með frumvarpinu er fyrirkomulaginu um ákvarðanatöku breytt, þ.e. hæstv. ráðherra fær reglugerðarheimild og sömuleiðis er stofnuð þróunarsamvinnunefnd sem m.a. verður skipuð fimm alþingismönnum. Ég hvái við þetta. Ef menn hafa ekki tilgreindar ástæður fyrir því að breyta valdafyrirkomulagi sé ég ekki ástæðu til þess að fara í gegnum þingið með heilt þingmál einungis til þess að laga einhver meint samskiptavandamál eða til þess að skýra hvaða verkefni tilheyra hvaða stofnun. Mér þykir einfaldlega ekki næg ástæða til að breyta þessu, sér í lagi vegna þess sem kemur fram í umsögn félagsvísindasviðs Háskóla Íslands frá síðasta þingi, þegar málið var lagt fram, með leyfi forseta:

„Rannsóknir sýna að þróunarsamvinna bætir lífskjör, heilsu og menntun þegar að henni er staðið með faglegum hætti. Rannsóknir sýna einnig að gæði og afköst þróunarsamvinnu minnka þegar framlagsríki láta eigin hagsmuni, t.d. viðskiptahagsmuni eða stjórnmál, ráða för við úthlutun framlaga til þróunarmála.“

Þegar alþingismenn fara að taka aukinn þátt í tiltekinni ákvörðun getur undir sumum kringumstæðum verið um að ræða einhvers konar lýðræðisumbætur eða lýðræðislega aðkomu að málaflokki. Ég hef hins vegar ekki heyrt mikið talað um það hér úr þessari pontu, enda virðist stjórnarandstaðan aðallega sjá um að ræða þetta mál efnislega.

Það liggur fyrir að um er að ræða þróunarsamvinnumál þar sem engin ástæða er fyrir þingmenn til þess að taka beinan þátt í neinu ákvörðunarferli. Það virðist einfaldlega ekki vera nein þörf á að hafa eftirlit með starfseminni miðað við það sem við lesum frá DAC eða ef út í það er farið frá talsmönnum frumvarpsins. Við sjáum ekki fram á að það þurfi þinglegt eftirlit. Við hv. alþingismenn höfum nóg að gera, virðulegi forseti, það vantar ekki fleiri verkefni, hvað þá eitthvað sem virðist vera óþarft og betur komið í höndum faglegra aðila eins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Með hliðsjón af því að ekki á að spara peninga með þessu, að óskilvirknin virðist ekki vera ríkari en svo að skilgreina þurfi hvaða verkefni tilheyri hvorri stofnuninni og að samskiptavandinn virðist varla vera til staðar, og sá litli sem hefur verið nefndur hér felur í sér eitt ágreiningsatriði um eitt tiltekið mál, þá leggur maður ekki niður heila stofnun. Maður leggur ekki fram frumvarp um breytingar á einum stærsta málaflokki utanríkisráðuneytisins til þess að bregðast við slíku, virðulegi forseti. Ef við ætlum að gera það, ef við ætlum að fara út í slíkar breytingar og frumvarpsgerð og stofnanabreytingar af svona litlu tilefni þá velti ég fyrir mér hvað Alþingi eigi að gera annað en að brölta með slík mál.

Að því sögðu gætu alveg hafa verið málefnaleg rök fyrir því að gera þetta á einhverjum tíma. Ég sé þau bara ekki í þessu frumvarpi. Ég sé þau ekki í umsögnunum frá því í fyrra þegar málið var lagt fram. Ég sé þau ekki í rökstuðningi með greinargerð frumvarpsins eða í máli hæstv. utanríkisráðherra. Ég sé einfaldlega engin rök með þessu sem duga. Ég sé hins vegar nóg af rökum gegn því.

Það sem maður verður líka að velta fyrir sér, og hér förum við kannski yfir í aðeins djúpstæðari pólitíska umræðu, er hvernig hæstv. ríkisstjórn, sér í lagi þessi, fer með og sér vald. Það eitt að menn fari út í þessar breytingar af svona litlu tilefni væri kannski ekki umræðuvert í sjálfu sér í heildarsamhengi um valdbeitingu yfirvalda ef ekki væri um að ræða ríkisstjórn sem aftur og aftur sýnir Alþingi vanvirðingu, sýnir þjóðinni vanvirðingu þegar kemur að því hver eigi að beita hvaða valdi. Það er þess vegna sem ég lýsi yfir og hef lengi lýst yfir vantrausti á því hvernig ríkisstjórnin meðhöndlar vald, hvernig hún lítur á vald og hvernig hún tekur því sem sjálfsögðum hlut að hún ráði öllu.

Það er bent á það í umsögnum frá fyrra þingi að þarna sé á ferðinni reglugerðarheimild handa forsætisráðherra. Ég sé enn þá engin rök fyrir því og býð utanríkisráðherra gjarnan hér í andsvar til þess að rökræða það við mig og okkur. Ég er ekki alfarið á móti stofnanabreytingum eða því að Alþingi hafi nánari aðkomu að öllum málum, ég bara sé ekki rökin fyrir því að gera það í þessu tilfelli, ég sé ekki nein rök, engin sem standast í það minnsta.

Alþýðusamband Íslands nefnir nokkuð í umsögn með málinu á síðasta þingi sem ég tel vera áhyggjuefni og algjörlega lögmæt rök fyrir því að halda þessari vinnu eins faglegri og mögulegt er og það er að hætta sé á því að diplómatískar áherslur fari að blandast inn í þróunarsamvinnu, þ.e. að framlagsríki fari að reka hana með eigin hagsmuni að leiðarljósi en ekki hagsmuni fátækra ríkja eingöngu. Þetta eru lögmætar áhyggjur, virðulegi forseti.

Sömuleiðis bendir Alþýðusambandið á að þetta er málaflokkur sem almenn og breið pólitísk samstaða hefur verið um hér á landi, þannig að maður verður að velta fyrir sér hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra vill meiri aðkomu þingmanna. Ég mundi skilja það ef þetta væri heitur málaflokkur þar sem almennt væri mikið um deilur. En ef svo er ekki þá skil ég þetta hreinlega ekki. Fyrir utan það að eftir því sem fagfólkið segir sjálft þá virðist það ekki vera leiðin fram á við þegar kemur að málaflokknum, eðlilega. Þetta er ekki málaflokkur sem á heima í þessum þingsal, alls ekki, virðulegi forseti. Við ættum ekki að vera að víla og díla um það hér hvaða faglegu ákvarðanir ætti að taka í málaflokknum, við eigum mun frekar að búa þannig um að ferlið sé faglegt. Þetta er þannig ferli.

Eitthvað hefur verið minnst á það að annars staðar sé þetta svona eða hinsegin. Í fyrsta lagi er ég almennt ekki þeirrar skoðunar að við eigum sjálfkrafa að elta fyrirkomulag sem notað er annars staðar. Í öðru lagi kemur fram í umsögn félagsvísindasviðs Háskóla Íslands frá því að málið var lagt fram á síðasta þingi, ég ætla að lesa það orðrétt, með leyfi virðulegs forseta:

„Danmörk og Noregur eru nefnd sem vel heppnuð dæmi en bæði ríkin hafa nýlega flutt þróunarstofnanir sínar, Norad og Danida, inn í utanríkisráðuneyti ríkjanna, án þess þó að þær séu lagðar niður. Norad og Danida starfa enn sem undirstofnanir viðkomandi ráðuneyta og héldu þær hvor um sig nýlega upp á 50 ára afmæli sitt. Á sama hátt og Norad og Danida er ÞSSÍ ákveðið vörumerki þróunarsamvinnu Íslendinga. ÞSSÍ hefur getið sér gott orð og hefur á liðnum árum byggt upp faglega þekkingu á þróunarsamvinnu.“

Jafnvel ef þetta væri einhvern veginn allt öðruvísi hjá nágrannalöndum okkar er ég ekki sannfærður um að það væri ástæða eitt og sér til þess að gera hlutina eins og aðrar þjóðir, enda erum við frábrugðin öðrum þjóðum þó ekki væri nema vegna smæðar þjóðarinnar.

Nú hef ég rennt yfir þær ástæður sem gefnar eru fyrir því að fara þessa leið. Þegar rökin eru svona léleg verður maður að velta fyrir sér hvort mönnum gangi annað til. Mér leiðist sú tortryggni en þegar kemur að valdi — og sér í lagi þegar menn vilja færa vald, sem á heima í faglegum höndum, nær pólitíkinni — verður maður að spyrja sig hvaða möguleikar séu til staðar, hver gæti verið raunveruleg ástæðan fyrir þessu. Auðvitað, virðulegi forseti, veit ég það ekki vegna þess að ég les ekki hugsanir og get ekkert sagt um það með vissu. Mér finnst samt mikilvægt að við nefnum möguleikana til þess að átta okkur á því hvað við erum að vinna með og hvaða möguleikar eru í stöðunni og hvers vegna og hverjar forsendur eru sem við erum að reyna að vinna eftir. Eftir því sem ég fæ best séð eru þær að með því að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður og færa starfið inn í ráðuneytið sé auðveldara að stjórna fjármagni, einkum þegar hæstv. utanríkisráðherra er kominn með reglugerðarheimild sem á að tilgreina betur hvernig starfinu er háttað, þá er komið þarna fjárveitingavald. Fjárveitingavald, virðulegi forseti. Ég veit ekkert hvort það er ætlun hæstv. ráðherra að breyta einhverju þar um en ég óttast að svo gæti verið, ef ekki frá hæstv. ráðherra þá frá öðrum sem tala fyrir málinu innan ráðuneytisins og vilja kannski ólmir hafa einhverja meiri stjórn yfir þessu.

Það er því miður oft þannig, virðulegi forseti, að það getur myndast í okkar ágæta kerfi stofnanarígur þar sem einstaka starfsmenn stofnana eru einfaldlega upp á kant við einstaka starfsmenn annarra stofnana. Þetta getur skemmt mjög mikið fyrir. Það ættu ekki að vera neinar fréttir fyrir neinum.

Ef það er málið hérna væri málefnalegra að tilgreina það almennilega. En aftur: Ég veit ekkert hvort svo sé. Mér dettur þó í hug að það sé freistandi fyrir einstaka aðila innan hinna og þessara stofnana að geta einfaldlega stjórnað meira hvert fjármagn fer, kannski haft aðeins meiri áhrif á það hvernig starfinu er háttað, til þess að hafa einhver áhrif á það þótt lítil séu, til þess að ákvarða hvernig fjármagni er eytt.

Að mínu mati er stjórnsýslan allt of illa fjármögnuð. Í öllum þeim ráðuneytum sem ég hef eitthvað þurft að eiga við kemur fjárskortur alltaf upp, aftur og aftur. Ég held að þetta sé vandamál hjá öllum ráðuneytum og sérstaklega í kjölfar hrunsins 2008. Það er skiljanlegt en það er óþolandi. Það er einnig skiljanlegt að við slíkar aðstæður hafi aðilar innan kerfisins tilhneigingu til þess að bítast meira um fjármagnið og kannski detta í hug hlutir sem þeim dytti annars ekki í hug.

Mér finnst mikilvægt að við höfum alltaf í huga þegar við breytum fyrirkomulagi valds þannig að það færist meira á hendur stjórnmálamanna hvers vegna við erum að gera það. Þarf þessi málaflokkur meiri lýðræðislega aðkomu? Enginn virðist hafa mælt með því. Enginn virðist geta útskýrt hvers vegna. Þarf þessi stofnun endurskipulagningu? Er hún eitthvað sérstaklega óskilvirk? Stendur hún sig illa? Nei, virðulegi forseti, svo er ekki. Munum við spara fjármagn með þessu sem gerir okkur þá kleift að gera vel í sama málaflokki seinna eða öðrum núna? Nei, virðulegi forseti.

Ég sé engar ástæður til að samþykkja þetta frumvarp. Það má vel vera að til séu málefnalegar ástæður fyrir því að vilja breyta hinu og þessu fyrirkomulaginu en ég sé þær ekki í þessu. Við eigum alltaf — við eigum alltaf — virðulegi forseti, að vera tortryggin þegar kemur að valdi. Ég verð því að vera tortrygginn þegar kemur að þessu frumvarpi.