145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:44]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Hann er kannski að hugsa á svipuðum nótum og ég hef verið að gera og fleiri í stjórnarandstöðunni. Hann talar mikið um upplýsingar og að allt sé gert fyrir opnum tjöldum og þá finnst manni það skjóta skökku við að ráðherrann hefur hér ákveðið að fara gegn því sem Ríkisendurskoðun hefur bent á.

Ríkisendurskoðun hefur varað við þessu fyrirkomulagi, þ.e. að einn og sami aðilinn móti stefnuna, framkvæmi hana og hafi eftirlit með henni. Við erum örugglega sammála um að það getur tæplega talist til góðrar stjórnsýslu. Ég tel heppilegra að ráðuneytið sjái um að móta þessa stefnu og Alþingi verði leiðsagnaraðilinn í því, en að sú stofnun sem við fjöllum hér um framkvæmi hana og ráðuneytið sjái svo um þann eldvegg sem á að vera þarna á milli.

Hér var talað um fjármuni og við eigum að hafa áhyggjur af því að þeir fjármunir sem í þessu eru týnist í ógagnsæi ráðuneytisins, því að ráðuneyti, eins og við kannski þekkjum, er ekki það skilvirkasta í heimi; ekki bara þetta ráðuneyti heldur ráðuneyti yfirleitt. Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki hluti af því að ekki er heppilegt að svona starf fari inn í ráðuneyti, þar sem oft á tíðum þarf að taka ákvarðanir mjög hratt. Við þekkjum starf ráðuneyta kannski ekki beinlínis af því að þar séu ákvarðanir teknar með hraði.