145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki það sem hv. þingmaður fjallar um varðandi Ríkisendurskoðun, en auðvitað er það bara heilbrigði skynsemi sem þar er á ferð, sem hv. þingmaður nefndi, að það sé ekki sami aðilinn sem ákveði alla þessa þætti.

Mér dettur helst í hug að þetta snúist um fjármagn, um það að ráðuneytið geti ráðstafað fénu — tímabundið nákvæmlega í samræmi við það sem er gert núna en síðan líður tíminn og önnur verkefni poppa upp hjá ráðuneytinu og verða fyrirferðarmeiri og þá óhjákvæmilega hliðra menn til.

Fyrst þetta er einn stærsti einstaki málaflokkurinn sem utanríkisráðuneytið sinnir, eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur réttilega bent á, þá mundi maður helst vilja passa að slíkir málaflokkar séu fjármagnaðir með mjög skýrum hætti þannig að maður geti flett því upp í fjárlögum. Það er ógerningur, held ég, fyrir óbreytta borgara, og jafnvel þingmenn nema þeir hafi svolítið fyrir því, að finna út úr því nákvæmlega hvernig utanríkisráðuneytið mundi ráðstafa fé til þessa málaflokks ef ekki er til þess einhver sérgrein, einhvers konar aðskilnaður frá annarri starfsemi.

Þetta eru í sjálfu sér kannski ekki nein tromprök fyrir því að gera hlutina alltaf í sjálfstæðum stofnunum en það sem mér þykir svo áberandi hér er það að ég sé ekki hvaða vandamál menn eru að reyna að leysa. Ég sé hins vegar vandamál verða til, þar á meðal það að fjármögnun starfsins verður ógegnsærri, það verður erfiðara fyrir okkur þingmenn að fylgjast með henni en ella. Við getum núna flett þessu upp í fjárlögum, sömuleiðis almenningur.

Ég get illa svarað því til hvernig þetta á að leiða eitthvað gott af sér. Ég sé tvímælalaust að þarna virðist þetta verða ógegnsærra, alla vega eftir því sem ég fæ best séð.