145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski eitt af því sem er þá hluti af þessu líka, það sem ráðuneytið gerir ekki en þessi stofnun gerir, og það hlýtur að vera ástæða til að velta því upp af því það hefur ekki komið fram, hvorki hjá ráðherra né annars staðar, að Þróunarsamvinnustofnun Íslands er með alls konar árangursmælingar á því sem hún er að gera. Það hefur, eins og hér hefur verið rakið, ekkert verið að því að finna og gengið vel frekar en hitt.

Við erum svo hins vegar með friðargæsluna sem er í ráðuneytinu. Það er frekar ógagnsær rekstur. Eins og hv. þingmaður benti á þá getum við ekki beinlínis rakið okkur í gegnum þá hluti alla og markmiðin eru frekar almenn. Starfið hefur ekki, að mér sé kunnugt um, verið árangursmetið. Stjórnsýsluhættir eru ekkert sérstaklega góðir. Þar var til dæmis ráðið í störf án þess að auglýsa. Það eru í raun engin opinber gögn eða neitt slíkt sem sýna beinlínis árangur í þeirri starfsemi án þess að ég hafi einhverjar efasemdir um það sem slíkt, en þau gögn eru bara ekki til. Mér finnst það mjög mikilvægt.

Við erum að tala hér um mjög viðkvæman málaflokk og það er mjög óþægilegt að ráðuneytið skuli ekki geta sýnt fram á að þetta verði með sambærilegum hætti. Það er eðlilegt, ráðherra verður að átta sig á því, að við höfum mjög miklar efasemdir um að þetta verði jafn gott og verið hefur.