145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson flutti alveg prýðilega og bráðsnjalla greiningu á því hvar valdið liggur og hvernig farið er með það. Ég hef tekið eftir því að hv. þingmönnum Pírata verður tíðrætt um það hver sé miðja valdsins í þessum sölum hér, eðlilega. Þó að þeir hafi ekki verið lengi á þingi þá er eitt það fyrsta sem þeir hafa komist að raun um að valdið, sem samkvæmt stjórnarskránni ætti að liggja hjá löggjafanum, virðist því miður í meiri mæli en hollt er liggja hjá framkvæmdarvaldinu. Þetta er þróun sem menn hafa verið að reyna að snúa við á hinu háa Alþingi á síðustu árum og jafnvel áratug. Það kvað sérstaklega rammt að þessu upp úr 1995 á sælum valdadögum Davíðs Oddssonar sem í krafti síns stjórnunarstíls sá til þess að á þeim tíma mátti heita að valdið væri bókstaflega tekið úr höndum þingmanna og stjórnarliðsins og sett í hendur framkvæmdarvaldsins. Í kjölfar bankahrunsins og ýmissa skýrslna sem menn fóru þá að skrifa til þess að greina ástæður hrunsins, þá var niðurstaðan sú að ein af ástæðum hrunsins hafi einmitt verið hversu fast ráðherrar gengu í því að sækja sér vald. Þingið setti upp varnir og það verður að segjast löggjafanum til hróss að á síðustu árum hefur hann að mörgu leyti reynt að klóra til sín aftur það vald sem hann hafði.

Í þessu máli hins vegar sjáum við að menn eru komnir á brokk í hina gömlu átt, þ.e. í málinu hefur enginn einasti þingmaður stjórnarliðsins haldið ræðu með málinu ef frá er talið eitt andsvar, en sá eini sem hefur haldið ræðu lagðist gegn málinu. Við vitum að obbi stjórnarliðsins, að minnsta kosti Sjálfstæðisflokksins, er á móti málinu en ráðherrann ætlar að ná því fram.

Hvað segir hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson um þessa nýju endurþjöppun valds í höndum framkvæmdarvaldsins? (Forseti hringir.) Er hann ekki sammála mér að þetta er partur af slíkri þróun?