145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Jú, virðulegi forseti, ég var í yngri kantinum þegar hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, var hvað virkastur hér á bæ. En það var auðvitað altalað og með réttu að framkvæmdarvaldið hefur tilhneigingu til að sanka að sér valdi. Þegar menn sýna mikla ósvífni í þeim efnum þá er fullt tilefni til þess að vera tortrygginn þegar menn koma hér inn með þingmál sem eru ætluð til þess að færa ráðherra meira vald og setja fleiri hluti undir hæl hins pólitíska meiri hluta, vegna þess að pólitíski meiri hlutinn á Alþingi endurspeglar jú, að því er virðist undantekningarlaust, vissulega undantekningarlítið hérlendis, ríkisstjórnina.

Ef fimm þingmenn yrðu í þeirri ágætu nefnd sem stendur til að stofna liggur ljóst fyrir að sá meiri hluti þeirrar nefndar yrði alltaf stjórnarmeirihlutinn. Jafnvel slík lýðræðisleg aðkoma eða meint lýðræðisleg aðkoma mundi þýða það að allt í einu færu pólitíkusar að skipta sér af einhverjum faglegum ákvörðunum sem þeim bæri skyndilega að skipta sér af, þá væri það samt sem áður meiri hlutinn sem réði. Það er alltaf vandinn. Þetta er alltaf það sem þarf að spyrja í sambandi við vald. Hver á að hafa valdið?

Þegar kemur að Þróunarsamvinnustofnun fæ ég ekki séð að nein ástæða sé til að hafa þetta undir stjórnmálamönnum. Þetta eru faglegar ákvarðanir og fagleg stúdía á vandamáli sem er pólitísk samstaða um hvernig skuli nálgast í heild sinni.

Ég sé ekki að meiri pólitísk afskipti af þessu tagi séu til bóta þegar kemur að því að setja þingmenn í nefndina. Í öðru lagi efast ég um að þingmenn gætu sinnt því miðað við hvað það er almennt miklu meira en nóg að gera hér á bæ nú þegar. En sömuleiðis mundi sú reglugerðarheimild sem veitt yrði hæstv. utanríkisráðherra gefa honum færi á að móta starfið til að deila fjármagni og til að búa um starfið þannig að það yrði meira pólitískt en minna.